Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Yfirlýsing um að hópur starfsmanna Kaupþings yrði ekki gerður persónulega ábyrgur fyrir lánum bankans til þeirra kom frá Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, og var gerð í lok septembermánaðar samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Stjórn Kaupþings samþykkti gjörninginn. Bankinn féll skömmu síðar.
Lánin voru veitt til starfsmanna Kaupþings svo þeir gætu keypt hlutabréf í bankanum. Heildarlánveitingar til þeirra voru samkvæmt efnahagsreikningi Kaupþings rúmlega 50 milljarðar króna. Stærstu einstöku skuldararnir voru samkvæmt heimildum Morgunblaðsins Hreiðar Már og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Þá vógu lán til annarra stjórnenda mjög þungt en almennir starfsmenn bankans tóku einnig smærri upphæðir að láni til að kaupa sér hluti í Kaupþingi.
Öllum lánasamningum fylgdu veðköll sem gerðu Kaupþingi kleift að kalla eftir auknum tryggingum fyrir lánunum ef hlutabréf í bankanum lækkuðu í verði. Þeim veðköllum var aldrei beitt þrátt fyrir að gengi bréfa í Kaupþingi hefði fallið mikið á síðasta rúma árinu.
Þess í stað hvöttu stjórn og stjórnendur Kaupþings starfsmenn sína til að selja ekki bréfin sín til að veikja ekki tiltrú markaðarins á bankanum.