Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur hjá Nýja Landsbankanum, sagði í opnum félagsfundi SVÞ í morgun að fyrsta verkefni stjórnvalda til að koma Íslendingum út úr kreppunni væri að koma „krónulufsunni" í gang, eins og hún orðaði það. Við núverandi aðstæður væri gengi krónunnar illa ákveðið og hún algjörlega óþekkt stærð. Þetta væri nú að smitast út í efnahagslífið.
Edda Rós sagði mörg fyrirtæki nú glíma við mikinn vanda og raunveruleg áhrif kreppunnar myndu koma fram á næstu vikum.
Hún sagði aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF, algjört lykilatriði og lán þaðan myndi aðvelda samninga við aðra lánadrottna. Öðruvísi kæmist alþjóðlegt greiðslukerfi ekki í gang. Við þessar aðstæður væri íslenska krónan í rauninni dauð, og þær lausnir sem þyrfti að grípa til strax væru í raun bráðabirgðalausnir. ,,Í mínum huga er krónan dauð og mér finnst ekkert mál að fylgja öldnum félaga til grafar," sagði Edda Rós.
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tók þátt í umræðum að loknu erindi Eddu Rósar. Líkt og hún sagði hann það vera fyrsta verkefnið að fá raunverulegt verð á íslensku krónunnar. Til þess yrði að skapast samstaða og stjórnvöld og Seðlabankinn hefðu ekki verið að ganga í takt. Ný peningamálastefna væri forsenda þess að allir fengju trú á framtíðina. ,Hreinsa þarf upp það sem miður fór hjá okkur," sagði Lúðvík m.a.