Þingmaður breska Verkamannaflokksins, Mary Creagh, hvetur bresk stjórnvöld til þess að styðja við bakið á þeim sem áttu sparifé á reikningum íslensku bankanna á eyjunni Mön og Guernsey. Ian Pearson, ráðherra efnahagsmála í breska fjármálaráðuneytinu, segir að vandamál íslensku bankanna eigi ekki upptök sín á Bretlandi heldur í íslenska bankakerfinu.
Tryggingasjóðurinn tómur
Vefútgáfa Yorkshire Post hefur eftir Creagh að um tvö þúsund Bretar hafi átt reikninga hjá dótturfélagi Kaupþings, Singer Friedlander, á Mön.
Segir Creagh að yfirvöld á Mön hafi samþykkt að tryggja innistæður upp á allt að 50 þúsund pund eftir fall íslensku bankanna. Hins vegar sé munurinn sá að ekkert sé til inni í sjóðum Tryggingasjóð innistæðueiganda á Mön ólíkt Tryggingasjóði breska ríkisins á meginlandinu. Því séu líkur á að það taki mörg ár að greiða innistæðueigendum tryggingarfjárhæðina. Slíkt komi í veg fyrir að aldraðir sparifjáreigendur fái sitt endurgreitt.
Missti allt sitt
Aldraðir sem hafi misst allt sitt, segir Creagh. Nefnir hún sextuga konu, Katy Watt, sem var ráðlagt að opna bankareikning á Mön er hún flutti þangað fyrir fimm árum. Þegar hún fór á eftirlaun í sumar ákvað hún setja allt sitt fé, meðal annars andvirði fasteignar á reikning hjá Singer Friedlander á Mön. Nú er fé hennar týnt í kerfinu. Hvetur hún bresk stjórnvöld til aðgerða vegna fólks eins og Watt.
Skyldur við bresku bankana ekki íslensku Ian Pearson, ráðherra efnahagsmála í breska fjármálaráðuneytinu, segir í samtali við Yorkshire Post að vandamál íslensku bankanna eigi ekki upptök sín á Bretlandi heldur í íslenska bankakerfinu. Segir hann að skyldur breskra stjórnvalda hljóti að vera við sparifjáreigendur sem hafa sett sparifé sitt inn í bresku bankana. Hann sagði Creagh að hann myndi óska eftir því við fulltrúa fjármálaráðuneytisins að ræða við hana um vanda innistæðueigenda á Mön og Guernsey.