Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka, segir að stærstu mistökin sem bankinn hafi gert var að flytja ekki höfuðstöðvar hans úr landi. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð í Markaðnum á Stöð 2 í dag.
Sigurður segir að þetta hefði átt að gera þegar viðræður voru um kaup á hollenska bankanum NIBC. Þá væri Kaupþing hollenskur banki í dag og hefði ekki farið í þrot.
Sigurður fór í viðtalinu yfir undanfara þess að bankarnir hrundu hver á eftir öðrum á Íslandi. Hann segist hafa beðið ráðherra um að fara ekki þá leið sem farin var með Glitni, það er að ríkið kæmi inn sem 75% hluthafi inn í bankann. Það hefði mjög slæm áhrif út í alþjóðlegt fjármálalíf. Ráð hans hafi hins vegar ekki fengið neinn hljómgrunn hjá ráðamönnum þjóðarinnar.
Sigurður segist geta fullyrt að þetta hefði ekki farið eins og þetta fór ef Ísland væri með evru og með stuðning frá evrópska seðlabankanum. Íslenska krónan sé aftan úr fornöld og fáránlegt að notast við hana sem gjaldmiðil.
Hann segist taka fulla ábyrgð á falli Kaupþings og taki þetta mjög nærri sér.
Hefði átt að loka Icesave strax í marsmánuði
Sigurður segir að það sé mjög alvarlegt og að engin svör hafi fengist við því enn er að í marsmánuði þá hafi það verið ljóst að Icesave-reikningar Landsbankans gátu ekki gengið í því formi sem þeir voru. Landsbankinn gat ekki flutt nægjanlega mikið af eignum frá móðurfélaginu á Íslandi yfir til Bretlands til þess að standa að baki útibúum í Bretlandi þar sem hann átti nægjanlegar eignir til þess að standa við bakið á þeim miklu innlánum sem voru í Bretlandi. Það þýði það að það hefði átt að stöðva að minnsta kosti frekari innlánssöfnun inn á Icesave reikningana strax í marsmánuði.
Það gerist ekki þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið á Íslandi sé með þessa vitneskju og bankamálaráðuneytið á Íslandi.
„Þetta er í marsmánuði. Bankinn fær áfram í sex eða sjö mánuði að auglýsa og safna frekari innlánum sem gera vandann enn illviðráðanlegri. Og ég skil ekki af hverju þetta var ekki stoppað þá af íslenska fjármálaeftirlitinu eða íslenska bankamálaráðherranum. Sem síðar gerir sér sérstaka ferð til Bretlands og hittir fjármálaráherrann hér og ekkert gerist. Þetta verður ennþá óskiljanlegra í mínum huga þegar haft er í huga hvernig var komið fram við Kaupþing hér í Bretlandi í lok september og byrjun október," sagði Sigurður.
Hann segist ekki kannast við að peningar hafi verið fluttir út úr Kaupþingi til útlanda líkt og haldið hefur verið fram í fréttum. Sigurður segir að eign hans í bankanum sé töpuð en hann hafi aldrei selt hlutabréf í Kaupþingi og ekki heldur stofnað einkahlutafélag um þau.