Stærsti svæðisbundni banki Þýskalands, Landesbank Baden-Württemberg er með 1 milljarð evra bundinn í lánum á Íslandi samkvæmt upplýsingum dagblaðsins Süddeutsche Zeitung.
Talsmaður bankans sagði AFP fréttastofunni að bankinn væri að íhuga það alvarlega hvort farið yrði fram á fjárhagsaðstoð frá þýskum yfirvöldum. Fjárfestingar bankans á Íslandi eru af Süddeutsche Zeitung sagðar ein líklegasta ástæðan fyrir slæmri stöðu bankans.
Fleiri þýskir bankar eru í vandræðum vegna lána til íslenskra banka og má þar nefna ríkisbankann KfW sem talinn er hafa tapað 288 milljónum evra í viðskiptum við íslenska banka og BayernLB sem á að hafa fjárfest fyrir 1,5 milljarð evra á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Süddeutsche Zeitung hefur þurft að afskrifa allt að helming fjárhæðarinnar hjá Bayern LB.