Einungis 1 milljarður Bandaríkjadala af þeim 6 milljörðum sem talið er að þurfi til að reisa við íslenska gjaldeyrismarkaðinn er í höfn. Milljarðurinn eini er kominn frá Noregi, Færeyingum og Pólverjum. Í Morgunblaðinu í dag greinir Geir H. Haarde, forsætisráðherra frá því að ekki sé búið að tímasetja fund framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þar sem umsókn Íslendinga um lán verður tekin fyrir.
Færeyingar riðu á vaðið og lánuðu okkur 51 milljónir dala. Norðmenn lána okkur 664 milljónir dala og Pólverjar 200 milljónir dala. Hin Norðurlöndin, Svíþjóð, Danmörk og Finnland, vilja ekki tilkynna um lán fyrr en afgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins liggur fyrir, að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis. Einnig hefur verið leitað til Evrópusambandsins og Seðlabanka Bandaríkjanna í von um lán.
„Auk þess að leita til hinna hefðbundnu vinaþjóða okkar hafa íslensk stjórnvöld einnig leitað á ný mið. Eins og kunnugt er fór sendinefnd á vegum Seðlabankans til Rússlands í síðasta mánuði til að hefja formlegar samningaviðræður við Rússa. Þá hefur Geir H. Haarde forsætisráðherra staðfest að einnig hafi verið leitað til Kínverja um lánveitingu," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.