Bandaríska raftækjakeðjan Circuit City tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði óskað eftir greiðslustöðvun og fengið 1,1 milljarða dollara lán til þess að mæta hnignandi sölutekjum.
Fyrirtækið áformar að halda rekstrinum áfram og hafa verslanir opnar á meðan stjórnendur þess einbeita sér að yfirgripsmikilli endurskipulagningu fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Útibú Circuit City í Kanada mun einnig ætla að óska eftir greiðslustöðvun þar í landi.
Circuit City tilkynnti fyrr í mánuðinum um lokun 155 verslana í Bandaríkjunum um leið og hætt var við að opna nýjar verslanir, eins og fyrirhugað var. Um síðustu mánaðarmót voru reknar 712 Circuit City verslanir vestanhafs.