Sparisjóðabanki Íslands, sem áður hét Icebank, fær frest til 10. desember til að reiða fram auknar tryggingar vegna veðlána í Seðlabanka Íslands. Agnar Hansson, bankastjóri, segir að erlendir kröfuhafar hafi gefið jafn langan frest. Hann vonast til að ríkið komi að rekstri bankans ásamt erlendum aðilum.
„Hugmyndin er að draga alla að samningaborðinu og semja um skuldabreytingu. Gangi það eftir myndu kröfuhafar í Icabank verða hluthafar í bankanum,“ segir Agnar.
Í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands hefur Icebank fengið tæpa 150 milljarða króna að láni gegn veðum í verðbréfum í gömlu viðskiptabönkunum. Seðlabankinn hefur gert fjármálafyrirtækjum að leggja til auknar tryggingar fyrir þessum veðlánum og skulu þær nema 50% af heildar lánsupphæð.
Þessar tryggingar hefur Icebank ekki getað lagt fram. Agnar segir að því sé þessi leið farin. Ríkið yrði þá hluthafi í Icebank eins og aðrir kröfuhafar. Hugmynd að hlutfallslegri skiptingu milli þessara aðila liggur ekki fyrir. Agnar segir þó mikilvægt að sparisjóðirnir verði hluti af eigendahópnum til að viðhalda þeirri tengingu, sem byggist á áratugalöngu samstarfi.
„Þetta er eina leiðin fram á við,“ segir Agnar og myndi treysta eiginfjárhlutfall bankans til að standa af sér væntanlegar hræringar á fjármálamörkuðum. Lykilatriðið sé í hans huga að tryggja að utanríkisviðskipti geti farið í gegnum fleiri aðila en Seðlabanka Íslands. Hann hefur sagt Icebank hafa tengslanet til útlanda og stundað greiðslumiðlun milli landa í langan tíma.
„Að þessu er unnið í samráði við opinbera aðila og erlenda lánadrottna,“ segir bankastjóri Icebank.