Á meðan gjaldeyrismál landsins eru í lamasessi gengur smátt og smátt á gjaldeyrisforðann sem fyrir er. Greining Glitnis segir, að mikil vanhöld virðist á því að útflutningstekjur skili sér á innlendan gjaldeyrismarkað, og hafi því komið til kasta Seðlabanka að leggja til gjaldeyri til innflutnings úr gjaldeyrisforðanum.
Í Morgunkorni Glitnis segir, að gjaldeyrisforði Seðlabankans ætti að duga til innflutnings vöru og þjónustu fram yfir fyrsta fjórðung næsta árs að öðru óbreyttu, jafnvel þótt lítið sem ekkert innflæði komi á móti frá útfluttum vörum og þjónustu. Brýnt sé hins vegar að heimtur gjaldeyristekna inn í hagkerfið verði bættar sem allra fyrst, því afar varasamt sé að stóla lengi á gjaldeyrisforðann til fjármögnunar innflutnings.
Frá síðustu mánaðamótum nema heildarviðskipti í gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans 60 milljónum evra en Glitnir segir, að stærstur hluti framboðs á evrum í uppboðum bankans til þessa virðist koma úr gjaldeyrisforða bankans. Athygli veki, að í gær urðu engin viðskipti í uppboði bankans þar sem hæsta kauptilboð var nokkru lægra en lægsta sölutilboð.
Glitnir segir, að töfin,s em orðin sé á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á aðstoð til Íslands og þeim lánum frá öðrum sem í kjölfarið fylgja hafi margháttuð slæm áhrif.
„Í fyrsta lagi tefur hún fyrir að lag komist á gjaldeyrismarkað og útflutningstekjur skili sér inn í hagkerfið þar sem margir útflytjendur virðast halda að sér höndum með flutning gjaldeyristekna inn í kerfið í þeirri miklu óvissu sem nú ríkir. Í öðru lagi gengur hægt og sígandi á gjaldeyrisforðann, sem dregur úr slagkrafti Seðlabankans til að koma fótum undir krónuna þegar henni verður fleytt. Auk þess er hætta á að töfin festi í sessi gjaldeyrisskömmtun með tvígengiskerfi, þar sem eitt gengi krónu mun ríkja á innlendum markaði og annað utan landsteinanna. Loks dregur töfin og óvissan enn kjarkinn úr erlendum fjárfestum sem eiga krónur í tiltölulega seljanlegum eignum á borð við ríkisbréf og innstæðubréf og eykur þar með líkur á verulegum fjármagnsflótta þegar krónunni verður fleytt á ný. Því má ljóst vera að afar brýnt er að því ástandi óvissu og óskilvirks gjaldeyrismarkaðar sem nú ríkir linni sem allra fyrst," segir í Morgunkorni.