Íslenska bankakerfið er hrunið, verg landsframleiðsla er að dragast saman um 65% í evrum talið og mörg fyrirtæki eru á leið í þrot en önnur hyggjast flytjast úr landi. Þriðjungur þjóðarinnar íhugar að flytja á brott frá Íslandi.
Hollensk og bresk stjórnvöld krefjast þess að innistæður, sem eru meiri en öll landsframleiðslan á Íslandi , íbúa ríkjanna tveggja á hávaxtareikningum íslensku bankanna fáist endurgreiddar. Leiðtogar Evrópuríkjanna verða að grípa inn til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist fyrir önnur lítil ríki sem eru með stóran fjármálageira. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Jóns Daníelssonar hagfræðings á vef Resource Investor.
Segir Jón í greininni að Ísland sé að ganga í gegnum þá dýpstu fjármálakrísu sem um getur á friðartímum eftir að þrír stærstu bankarnir fóru í þrot í sömu vikunni. Ísland sé fyrsta þróaða ríkið sem leitar til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð í þrjátíu ár.
Að sögn Jóns má rekja vandann sem Ísland glímir nú við til raða mistaka. Fyrstu mistökin sem hann nefnir er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en verðbólga hafi yfirleitt verið meiri en markmiðið kveður á um frá því það voru sett. Til varnar hafi Seðlabanki Íslands haldið stýrivöxtum háum, allt að 15%.
Grein Jóns Daníelssonar í heild á vef Resource Investor