Ríkisstjórn Slóveníu bauð út á evrópska efnahagssvæðinu kaup á eftirlitskerfi með skipaflota sem siglir í slóvenskri lögsögu. Á grundvelli tilboða sem bárust í útboðið var gengið til samninga við Sirius IT, dótturfélag Skipta í Danmörku.
Hreinn Jakobsson, stjórnarformaður Sirius IT, segir í fréttatilkynningu þetta afar ánægjulega niðurstöðu fyrir félagið. „Eftirlitskerfið sem nefnist V-track er hannað til að fylgjast með allri skipaumferð á tilteknu svæði, ekki ósvipað því sem notað er við flugumferðastjórn. Kerfið uppfyllir alla staðla sem Evrópusambandið setur á slík eftirlitskerfi og nú þegar eru fleiri Evrópusambandslönd að skoða þetta kerfi til innleiðingar enda skýrar reglur um að öll Evrópusambandsríkin sem hafi lögsögu á sjó þurfi að hafa eftirlit með allri skipaumferð innan sinnar lögsögu.“