Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að líklegt sé að íslenska þjóðarbúið verði lengur að rétta úr kútnum heldur en annars staðar. Það skýrist fyrst og fremst af því hve stórt áfallið var hér. Þetta kom hjá Arnóri í pallborðsumræðum á fundi Viðskiptaráðs í morgun.
Hann segir að spá sú sem birtist í Peningamálum Seðlabankans þann 6. nóvember sl. sé unnin á þeim tíma þegar allt var að hrynja allt í kringum okkur. Aðstæður hafi því breyst hratt á meðan vinnunni stóð.
Unnið náið með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum
Á þeim tíma sem spáin var í undirbúningi var líka stödd hér sendinefnd Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og unnið var mjög náið með henni í byrjun. „Það er kannski ekki að undra að grunnspáin hjá okkur er mjög lík þeirri sem birtist síðan í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.”
„Menn taka líka eftir því þegar þeir fletta Peningamálum núna að spárnar eru öðruvísi fram settar en verið hefur. Hingað til hefur verið settur upp stýrivaxtaferill sem að mati starfsmanna Seðlabankans nægir til að ná fram markmiði Seðlabankans á tilteknu tímabili. „Við treystum okkur ekki til að gera slíkar spár núna vegna óvissunnar þannig að þið sjáið engar stýrivaxtarspár í Peningamálum.
Hann segir að nú séu birt tvö fráviksdæmi fyrir utan grunnspána í Peningamálum sem gefi til kynna hverju þjóðin gæti staðið andspænis ef að málin þróast á einhvern annan veg en í grunnspánni.
„ Nú hvers vegna treystum við okkur ekki til að birta stýrivaxtaspá að þessu sinni? Það er vegna þess að til þess að geta gert það þá þarf miðlunarferli peningamálastefnunnar að vera nokkurn veginn þokkalega vel skilgreint. Það þarf að vera nægjanleg vissa, eða óvissan í gengismálum má ekki vera svo mikil að það séu allar spár samstundis úr skorðum.
Reyndar er þetta vandamál sem við höfum verið að glíma við lengi. Það má segja að það hafi verið ansi erfitt lengi að gera verðbólguspár einmitt vegna þeirrar óvissu sem við töldum vera í gengismálum. Við brugðumst við þessari óvissu fyrst og fremst með því að gefa út spár sem sýndu þróunina ef að gengi krónunnar myndi þróast með óhagstæðum hætti,” sagði Arnór.
Hann segist vonast til þess að reyndin verði ekki sú núna að þróunin verði óhagstæðari en grunnspá Seðlabankans segir til um. Hún sýni harkalega niðursveiflu.
Að sögn Arnórs sýnir samanburður á spá Seðlabankans við aðrar spár sýni að þær sýni svipaða niðurstöðu. „Eftir vill verður íslenska þjóðarbúið ívið lengur að rétta úr kútnum og þá fyrst og fremst vegna þess hversu stórt áfallið er hjá okkur. Eins vegna þess að fjármálakreppan er jú alþjóðleg.”