Eignir Landsbankans í Bretlandi eru enn undir stjórn breskra stjórnvalda og ekkert liggur fyrir um hversu mikið íslenska ríkið þarf að greiða vegna ábyrgðar sinnar á Icesave-reikningum bankans.
Í fyrsta lagi vegna þess að ekki er vitað hversu mikið af eignum Landsbankans mun hrökkva til og í öðru lagi þar sem upphæðin hefur ekki enn verið reiknuð út, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Hingað til hefur verið rætt um að eignir gamla Landsbankans muni hrökkva til fyrir stórum, ef ekki stærstum hluta, þeirrar fjárhæðar sem íslenska ríkið þarf að ábyrgjast vegna Icesave.
Hann segist ekki geta svarað því hvort eignir Landsbankans séu nægar til þess að ábyrgjast Icesave-reikningana, það sé háð mörgum óvissuþáttum.
Eignir Landsbankans í Bretlandi voru frystar af breska fjármálaráðuneytinu í síðasta mánuði og eru það ennþá, að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðherra. Bretar stjórna því þessum eignum enn sem komið er. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans nær frystingin yfir allar eignir Landsbankans í Bretlandi. Þar á meðal útlánasafn, fasteignir og alla fjármálagerninga sem Landsbankinn átti. Landsbankinn er enn á lista breska fjármálaráðuneytisins yfir stofnanir, samtök, fyrirtæki og þjóðir sem sæta efnahagslegum refsiaðgerðum.
Stefán Geir Þórisson, hæstaréttarlögmaður, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að alveg eins hefði mátt búast við því að Evrópusambandið hefði sagt upp EES-samningnum ef Íslendingar hefðu ekki náð samkomulagi um að greiða ábyrgðir vegna Icesave, enda væri um uppsegjanlegan samning að ræða af hálfu allra samningsaðila.