Eignir Landsbankans enn undir stjórn Breta

Retuers

Eignir Landsbankans í Bretlandi eru enn undir stjórn breskra stjórnvalda og ekkert liggur fyrir um hversu mikið íslenska ríkið þarf að greiða vegna ábyrgðar sinnar á Icesave-reikningum bankans.

Í fyrsta lagi vegna þess að ekki er vitað hversu mikið af eignum Landsbankans mun hrökkva til og í öðru lagi þar sem upphæðin hefur ekki enn verið reiknuð út, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Eignir Landsbankans

Samkomulag hefur náðst við ríki Evrópusambandsins um viðmið fyrir frekari samningaviðræður varðandi deiluna um Icesave-reikningana. Sumir áttu mun meira inni á Icesave-reikningunum sínum en lágmarkstrygging, sem tilskipun um tryggingavernd innistæðueigenda tekur til, þ.e. 20.887 evrur, en aðrir áttu mun minna.

Hingað til hefur verið rætt um að eignir gamla Landsbankans muni hrökkva til fyrir stórum, ef ekki stærstum hluta, þeirrar fjárhæðar sem íslenska ríkið þarf að ábyrgjast vegna Icesave.

Óvissa um lögsögu

„Það þarf fyrst að liggja fyrir eftir hvaða lands lögum verði farið með útibú Landsbankans, hvort það heyri undir íslenska lögsögu og þar með íslensk lög eða hvort bresk lög komi þar til álita með einhverjum hætti,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður. Hann segir að það séu fleiri álitaefni sem ekki liggi fyrir hvernig eigi að leysa. „Hvað gera t.d. aðrir kröfuhafar ef þeir telja að okkur hafi ekki verið skylt að greiða þessa upphæð vegna Icesave-reikninganna?“ spyr Ragnar.

Bretar stjórna eignunum

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans hefur skilanefndin gengið út frá því í sinni vinnu að íslensk lög gildi um eignir bankans. „Staða þeirra [kröfuhafa sem telja að Íslendingum hafi ekki borið að ábyrgjast Icesave] er sú að þeir þurfa að höfða mál til riftunar á útgreiðslu. Þeir myndu væntanlega höfða það gegn sem þeim koma til með að græða á gjörningnum,“ segir nefndarmaður í skilanefndinni.

Hann segist ekki geta svarað því hvort eignir Landsbankans séu nægar til þess að ábyrgjast Icesave-reikningana, það sé háð mörgum óvissuþáttum.

Eignir Landsbankans í Bretlandi voru frystar af breska fjármálaráðuneytinu í síðasta mánuði og eru það ennþá, að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðherra. Bretar stjórna því þessum eignum enn sem komið er. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans nær frystingin yfir allar eignir Landsbankans í Bretlandi. Þar á meðal útlánasafn, fasteignir og alla fjármálagerninga sem Landsbankinn átti. Landsbankinn er enn á lista breska fjármálaráðuneytisins yfir stofnanir, samtök, fyrirtæki og þjóðir sem sæta efnahagslegum refsiaðgerðum.

Stefán Geir Þórisson, hæstaréttarlögmaður, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að alveg eins hefði mátt búast við því að Evrópusambandið hefði sagt upp EES-samningnum ef Íslendingar hefðu ekki náð samkomulagi um að greiða ábyrgðir vegna Icesave, enda væri um uppsegjanlegan samning að ræða af hálfu allra samningsaðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK