Gylfi Zoega, deildarforseti og prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að mikilvægt sé að horfa fram á við og ekki sé rétt að slást innbyrðis um hver eigi sökina á því hvernig fór. Miklu skipti að fólk standi saman.Þetta kom fram í erindi Gylfa á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.
Segir hann kreppur reglulegar í kapítalísku hagkerfi og þrátt fyrir að ástandið sé verulega slæmt hér á landi nú þá hafi önnur lönd staðið frammi fyrir mikilli niðursveiflu áður.
Það sem gerðist var meðal annars það að heimilin og fyrirtækin höfðu aðgang að mjög ódýru lánsfé. Afleiðingin sé mikil eignaverðsbóla og meiri en eignirnar stóðu undir. Á sama tíma jókst einkaneysla og fyrirtæki og heimili urðu mjög skuldsett. Þannig að miklar eignir voru til en á sama tíma mjög skuldsettar. Síðan gerist það að bankarnir féllu og allt í einu urðu eignirnar verðminni en skuldirnar minnkuðu ekki. Í raun séu allir efnahagsreikningar orðnir allt öðru vísi en þeir voru fyrir einu eða tveimur árum síðan.
Fyrirtæki og heimili lenda í greiðsluerfiðleikum eða þroti í kjölfarið, atvinnuleysi eykst og atvinnurekstur sem hefur byggt á ódýru lánsfé breytist. Þannig að byggingastarfsemi dregst saman og fleiri atvinnugreinar. Hins vegar muni útflutningsgeirinn stóreflast.
Segir Gylfi þetta allt eðlilega þróun en erfitt sé að horfa fram á atvinnuleysi og gjaldþrot á næstunni. Benti hann Seðlabankanum á að það væri nær að Peningamál fjalli um eitthvað annað en verðbólguna sem ljóst sé að verði mikil. Heldur væri nær að fjalla um hvernig halda eigi atvinnulífinu gangandi. Hins vegar sé ekki hægt að bjarga öllum fyrirtækjum úr þeim vanda sem þau eru í. Það sé hins vegar nauðsynlegt að verja heimilin eins og hægt er.
Gylfi velti fyrir sér hvernig hafi staðið á því að bankarnir gátu lánað jafn mikið út og þeir gerðu og hvers vegna þeir urðu jafn stórir og raun ber vitni. Sagðist Gylfi ekki vitað svarið við þessu. Hins vegar verði að fara yfir peningamálastefnuna og hvað fór úrskeiðis í henni. Því þurfi að svara.