Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að ef litið sé lengra fram á veginn þá eigi sem betur fer fjármála- og gjaldeyriskreppur sér upphaf og endi. Hann segist hins vegar telja að þau lífskjör sem íslenska þjóðin bjó við á síðasta ári verði ekki komin aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til átta ár. Þetta kom fram í máli Ingólfs í pallborðsumræðum á fundi Viðskiptaráðs í morgun.
Hann segir að það sem blasi við er hversu djúpstæð og hversu löng sú lægð verði sem Íslendingar glími nú við. Það sé ljóst að skellurinn sé afar stór sem hagkerfið býr við. 85% af bankakerfinu hafi riðað til falls, bankakerfi sem var mjög stórt í samanburði við stærð hagkerfisins í heild. Skellur sem þannig sker sig úr í sögulegu ljósi eftir litið er til efnahagsþrenginga. Hlutabréfaverð hafi hrunið um 90% eða meira. Húsnæðisverð er á niðurleið, krónan hafi lækkað um nær helming frá því sem var þegar hún var sterkust og í raun meira. „Allt þetta kemur auðvitað illa við heimilin og fyrirtækin í landinu og þessum mælikvarða er þetta stór skellur,” segir Ingólfur.
Meirihluti fjármálamarkaðarins á Íslandi er illa laskaður ef ekki hruninn eftir þetta, segir Ingólfur. Gjaldeyrismarkaðurinn sé í fjötrum hafta og í raun tvöfalt kerfi í gangi á þeim markaði. Nánast ekkert sé eftir á hlutabréfamarkaði og millibankamarkaðurinn verulega laskaður.
Vorum fyrir í lægð
Ingólfur segir að það séu nokkrir aðrir þættir sem geri niðursveifluna jafn djúpa og raun ber vitni og langvarandi. „Hagkerfið var fyrir á leið í lægð og fyrirséð að þó það virðist kannski léttvægt í ljósi nýrra atburða en þá skiptir einnig máli niðurskurður aflaheimilda og stóriðjuframkvæmda.”
Hann segir að það hafi verið klár merki um eignaverðsbólu hér á landi og brestir komnir í kerfið, ýmis hættumerki sem bent hafi verið á af fjölda aðila, innlendra sem erlendra.
Erlendir markaðir afar erfiðir fyrir Ísland og glímt við alvarlega lánsfjárkrísu á erlendum mörkuðum og neikvæðan hagvöxt á evrusvæðinu. Eignaverð hafi einnig lækkað í nágrannalöndunum og allt þetta geri endurreisnina enn erfiðari.
Ísland hafi í raun orðið undir í alþjóðlegri krísu og það megi ekki gleyma sér í sjálfsgagnrýninni því þetta sé ekki einvörðungu heimatilbúinn vandi sem glímt sé við.
Ekki hægt að bjarga öllum sem tóku allt of mikla áhættu
Ingólfur kom inn á viðbrögð stjórnvalda á fundinum og segir að þau hafi mikil áhrif á það hvernig spilast úr kreppunni. Sögulega séð megi segja að engin stjórnvöld hafi brugðist kórrétt við kreppu. Það sé auðvelt að gera mistök á slíkum tímum og alls konar atriði sem koma upp og mönnum sem þurfi að bjarga. „Menn sem hafa jafnvel tekið allt of mikla áhættu í uppsveiflunni og vitað mál að ekki er hægt að bjarga þeim á svona tímum,” segir Ingólfur.
Hann segir að spár bendi til þess að framundan sé tveggja til þriggja ára kreppa framundan. Mjög djúp lægð með 10-12% samdrætti í landsframleiðslu. Verðbólgan yfir 20% í byrjun næsta árs. Krónunni verði fleytt og hún muni eflaust veikjast í kjölfarið á meðan verið er að hreinsa út úr hagkerfinu þá sem alls ekki vilja vera í þessari mynt. Síðan mun hún eflaust jafna sig og þróast að jafnvæði.
Ingólfur segir að væntanlega muni íbúðahúsnæði lækka að raunvirði um 30-40%, langtímavextir muni eflaust hækka og stýrivextir hækka ennfrekar. Atvinnuleysi verði væntanlega um 10%. „Í þessum samanburði er alveg ljóst að þessi kreppa verður okkur erfið,” segir Ingólfur.
Ef litið sé lengra fram á veginn þá eigi sem betur fer fjármála- og gjaldeyriskreppur sér upphaf og endi. Hann segist hins vegar telja að þau lífskjör sem íslenska þjóðin bjó við á síðasta ári verði ekki komin aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til átta ár.
Ingólfur segir að gæta verði þess að mæta þessum erfiðleikum ekki með einangrun. Alþjóðavæðing íslenska hagkerfisins hafi verið mjög góð á undanförnum árum.
Ingólfur segist hafa verið lengi þeirrar skoðunar að krónan sé ekki hentugur gjaldmiðill fyrir Ísland. „Hún veiti ekki það skjól sem fjölþjóðlegum fyrirtækjum þarf að vera búið. Þannig að ég tel að við þurfum að skoða það rækilega að taka upp evruna og þá ESB aðild um leið.”