Verð á hráolíu hefur lækkað á heimsmarkaði í dag í kjölfar nýrrar skýrslu frá Alþjóða orkurannsóknastofnuninni, sem kom út í dag en þar er því spáð, að heildareftirspurn eftir olíu á heimsmarkaði dragist saman á þessu og næsta ári í fyrsta skipti í aldarfjórðung.
Verð á svonefndri Brent Norðursjávarolíu, sem afhent verður í janúar, fór niður í 51,25 dali tunnan en hækkaði lítillega þegar leið á morguninn. Á hrávörumarkaðnum í New York var hráolíuverðið 54,90 dalir tunnan.
Orkurannsóknastofnunin segir, að þróun olíuverðs muni fara eftir því hve hratt OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, muni bregðast við samdrættinum í eftirspurn. Talið er að OPEC hafi ekki enn komið ákvörðun, sem tekin var um samdrátt 1. nóvember, í framkvæmd. Boðað hefur verið til fundar olíumálaráðherra ríkjanna í Kaíró 29. nóvember og hálfum mánuði síðar verður leiðtogafundur OPEC í Alsír.