Búast við annarri holskeflu

Áætlað er að um 400 milljarðar króna séu fastir í …
Áætlað er að um 400 milljarðar króna séu fastir í krónubréfum mbl.is/Golli

Búast má við annarri holskeflu í íslensku fjármálalífi þegar erlendir eigendur krónubréfa reyna að breyta þeim í erlenda mynt þegar krónan verður sett á flot. Þetta kemur fram á vef Financial Times. Þar kemur fram að Seðlabanki Íslands áætli að alþjóðlegir fjárfestar eigi allt að 400 milljarða króna í innlendum skuldabréfum.

Segir í frétt FT að krónan verði væntanlega sett á flot fljótlega eftir að ákvörðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins liggur fyrir síðar í dag.  Kemur fram að erlendir fjárfestar bíði örvæntingarfullir eftir því að loka stöðum í íslenskum krónubréfum sem hafa verið fryst frá því að hömlur voru sett á gjaldeyrisviðskipti á Íslandi í kjölfar hruns viðskiptabankanna þriggja.

Í grein sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason rita í Morgunblaðið í dag kemur fram að  íslensk stjórnvöld séu „reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar,“ samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem send var til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þessi yfirlýsing bendir til þess að til standi að nota erlent lánsfé til að styðja við gengi krónunnar.

„Það er vissulega svo að fall á verði krónunnar leiðir til hækkunar verðlags innfluttra vara og hækkunar erlendra skulda í íslenskum krónum. Hvort tveggja kemur sér illa fyrir heimili og fyrirtæki, sem nú þegar eru í miklum þrengingum. Engu að síður er nauðsynlegt að vara sterklega við því að nota takmarkaðan og dýrkeyptan gjaldeyrisforða með þessum hætti.

Þar er fyrst til að taka, að frá því þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var samin fyrir meira en tveimur vikum hafa aðstæður á gjaldeyrismarkaði breyst mjög mikið. Krónan sem ætlunin var að styrkja hefur á þessu tímabili fallið um nálægt 10% á innanlandsmarkaði.

Erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innanlands. Greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innanlands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að styðja við bakið á gjaldmiðli í „frjálsu falli“ er því ekki lengur til staðar. Það er því ástæða til að efast um að raunveruleg efnahagsleg þörf sé fyrir þetta lán. Að minnsta kosti eiga ýmis skilyrði sem þessu láni tengjast ekki lengur við.

Í annan stað er mikilvægt að hafa í huga að umtalsverðar upphæðir í krónum bíða þess að verða breytt í erlenda mynt. Stórfelld sala Seðlabankans á gjaldeyri í skiptum fyrir krónur í því skyni að halda uppi eða jafnvel hækka gengi krónunnar mun einungis leiða til þess að þeir sem flytja fjármagn út geta selt krónur sínar á hærra verði en ella. Með öðrum orðum í slíkri viðleitni Seðlabankans felst í rauninni niðurgreiðsla á erlendum gjaldeyri til þeirra sem hyggjast flýja Ísland með sitt fjármagn.

Í þriðja lagi er rétt að minna á þá staðreynd að hversu auðug sem stjórnvöld eru af erlendri mynt geta þau ekki haldið gengi gjaldmiðils fyrir ofan markaðsvirði hans til lengri tíma. Hversu illa sem það kann að koma við þjóðina að krónan veikist er ljóst að gengisskráning hennar verður að endurspegla framboð og eftirspurn eftir krónum. Allt annað er óraunhæft. Margföld reynsla af hliðstæðum gjaldeyriskreppum erlendis hefur sýnt að þar sem gjaldeyrisforðinn er notaður til stuðnings við gjaldmiðilinn hverfur þorri hans einfaldlega í vasa spákaupmanna, og landið situr eftir verr sett en áður.

Miklu ódýrari og efnahagslega skynsamlegri leið er að opna gjaldeyrismarkað að nýju og leyfa krónunni að falla eins og nauðsynlegt er þar til jafnvægi næst milli framboðs og eftirspurnar. Hlutverk Seðlabankans í þessu ferli er einungis að vera viðskiptavaki. Í því felst að hann greiðir fyrir og tekur þátt í viðskiptum með krónuna á sem næst jafnvægisgengi, en án þess að auka eða minnka gjaldeyrisforða sinn að marki hvern viðskiptadag.

Slík hlutlaus afstaða Seðlabankans gæti þýtt umtalsvert fall á genginu til skemmri tíma litið meðan það fjármagn sem býður flutnings fer úr landi. Það er hins vegar ástæða til að ætla að þetta gengisfall verði hvorki mikið né langvarandi. Grunnskilyrði þjóðarbúsins gefa til kynna að jafnvægisgengi krónunnar til lengri tíma sé að minnsta kost 25% hærra en nú gildir á innanlandsmarkaði.

Nýjustu tölur um viðskiptajöfnuð sýna jafnframt mikinn afgang og horfur eru á að hann vaxi fremur en hitt. Það eru því allar líkur á að gengi krónunnar hækki aftur á nýjan leik innan tiltölulega skamms tíma sem fremur verður talinn í mánuðum en misserum. Þetta vita auðvitað þeir sem sækjast eftir að breyta krónum sínum í gjaldeyri.

Þeir munu því í mörgum tilfellum kjósa að bíða gengishækkunar fremur en að kaupa gjaldeyri fyrir krónuna á óhagstæðu gengi. Þetta er auðvitað þeim mun líklegra sem krónan lækkar meira í kjölfar þess að hún verður gefin frjáls. Af þessum ástæðum er ólíklegt að gengisfallið verði mikið, nema e.t.v. í fáa daga, og það getur ekki verið langvarandi, að því er segir í grein hagfræðinganna þriggja í Morgunblaðinu í dag.

Frétt Financial Times í heild


  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK