Forstjóri Nomura Holdings, stærsta fjármálafyrirtækis Japans, segir að svo virðist sem alþjóðlega lausafjárkreppan virðist vera yfirstaðin en mikið verk sé enn óunnið við að endurbyggja fjármálakerfi heimsins og bæta það tjón sem kreppan hefur valdið.
„Lausafjárkreppunni í fjármálaheiminum er lokið. Næsta skref er að endurbyggja hið raunverulega hagkerfi," sagði Kenichi Watanabe, forstjóri Nomura, við blaðamenn.
Watanabe bætti við, að fólk fylgdist nú með því hvernig ríkisstjórnir um allan heim bregðast við vandanum og vísaði með því til fyrirheita þjóðarleiðtoga á fundi 20 helstu iðn- og þróunarríkja í Washington um helgina.
Hann sagði, að viðbrögð kínverskra stjórnvalda myndu skipta miklu máli fyrir endurreisn hagkerfa í Asíu.
Nomura Holdings keypti starfsemi bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers í Asíu og Evrópu þegar bandaríski bankinn varð gjaldþrota í september. Tap á rekstri Nomura nam 1,5 milljörðum dala á fyrri hluta fjárhagsárs fyrirtækisins vegna umrótsins á alþjóðlegum fjármáalamarkaði.
Watanabe sagði, að stefnt væri að því að Nomura skilaði hagnaði eins fljótt og mögulegt er en ljóst væri, að fyrirtækið væri í mjög erfiðri stöðu.