Norðurlöndin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, munu lána Íslandi samtals 2,5 milljarða dala, að sögn finnska blaðsins Kauppalehti. Blaðið sagði, án þess að geta heimilda, að þessi aðstoð yrði hluti af aðgerðapakka í tengslum við lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem væntanlega verður afgreidd í stjórn sjóðsins í dag.
Blaðið segir, að ekki sé líklegt að löndin fjögur skipti lánveitingunni jafnt á milli sín. Þá er fullyrt, að Rússar muni lána Íslandi hálfan milljarð dala og einnig komi til lán frá Póllandi, Færeyjum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Upphaflega var áætlað að Ísland þyrfti á 4 milljörðum dala að halda í lánsfé til viðbótar 2,1 milljarðs dala láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eða rúmum 6 milljörðum dala alls. Á mánudag kom í ljós, að lánsfjárþörfin er nú talin vera 5 milljarðar dala alls.