Hollendingar lána 1,3 milljarða evra

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

 Hollensk stjórnvöld munu veita íslenskum stjórnvöldum lán upp á 1,3 milljarða evra. Er skilyrðið fyrir lánveitingunni það að fjármunirnir verði notaðir til þess að greiða hollenskum sparifjáreigendum út það sem þeir eiga inni á Icesave-reikningum Landsbankans, að sögn talsmanns fjármálaráðuneytis Hollands.

Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar lána alls um 5 milljarða evra

Samkvæmt Dow Jones er lánið hluti af fimm milljarða evra lánapakka sem stjórnvöld í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi munu veita Íslandi. Icesave reikningarnir voru í boði í þessum þremur ríkjum. 

Lánapakkinn kemur í framhaldi af lánveitingu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til Íslands upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadala. Danir, Finnar, Norðmenn, Svíar, Rússar og Pólverjar lána Íslandi alls þrjá milljarða Bandaríkjadala.

Í samkomulagi sem kynnt var í síðustu viku kemur fram að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Endanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa mun ráðast af því hvað greiðist upp í innstæðutryggingar af eignum bankanna. Einnig er kveðið á um að Evrópusambandið, undir forystu Frakklands, taki áframhaldandi þátt í að finna lausnir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármálakerfi og efnahag.

Þann 11. október gengu Árni Mathiesen fjármálaráðherra og hollensk stjórnvöld frá samkomulagi þar sem hollenska ríkið veitir Íslandi lán sem gæti numið 1,1 milljarði evra. Sú fjárhæð hefur nú verið hækkuð í 1,3 milljarða evra.

Upphæðirnar miðast við hámark þess sem íslenska ríkið gæti þurft að greiða vegna Icesave-reikninganna, 20.887 evrur fyrir hvern reikning.

Þýsk, bresk og hollensk stjórnvöld fagna því að Ísland hafi fengið samþykki fyrir láni upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadala hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá þjóðunum þremur.

Kemur fram í yfirlýsingunni að ríkin þrjú heiti Íslandi stuðningi við að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sparifjáreigendum. Jafnframt að tryggja það að jafnræðis verði gætt af lánadrottnum.

Sem hluti af alþjóðlegum stuðningi við Ísland munu Bretland, Holland og Þýskaland stuðla að uppbyggilegum viðræðum við Íslendinga til þess að ljúka viðræðum um fjármögnun til þess að hægt sé að standa við skuldbindingar gagnvart sparifjáreigendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK