Ýmsir hafa velt fyrir sér hvað forsætisráðherra og fleiri eigi við að koma krónunni á flot á ný. Til útskýringar þá þýðir flotgengi að þá er gengi gjaldmiðils, í þessu tilviki krónunnar leyft að fljóta miðað við gjaldeyrismarkað. Það er, það ræðst á markaði á hverjum tíma, það er fer eftir því hve mikið markaðsaðilar eru reiðubúnir að greiða fyrir viðkomandi gjaldmiðil í erlendri mynt.
Andstaðan við fljótandi gengi er
fast gengi. Þá er gengið ákveðið af einhverjum, oftast seðlabanka
viðkomandi ríkis.
Þrátt fyrir að gengi gjaldmiðils teljist fljótandi þá reyna opinberir
aðilar, sérstaklega seðlabanki, oft að hafa áhrif á gengið. Þá er talað
um stýrt flot, að því er segir á vísindavef Háskóla Íslands.
Íslenska krónan hefur verið fljótandi undanfarna tvo áratugi en allt til ársins 2001 reyndi Seðlabanki Íslands að stýra flotinu, það er hafa áhrif á markaðinn fyrir krónuna, þannig að gengi hennar gagnvart myntum helstu viðskiptalanda héldist innan ákveðinna viðmiðunarmarka.
Frá því í mars 2001 hefur Seðlabankinn ekki haft það sem sérstakt markmið að halda genginu innan ákveðinna marka. Gengi krónunnar hefur þó eftir sem áður talsverð áhrif á aðgerðir bankans því að það skiptir miklu í baráttu hans við verðbólgu, sem er nú helsta markmið bankans.
Þann 7. október sl. fékk Seðlabanki Íslands, að fengnu samþykki forsætisráðherra, heimild til að eiga viðskipti á millibankamarkaði í dag á ákveðnu gengi. Í þessu felst ekki að gengið hafi verið fastsett. Aðeins það að Seðlabankinn telur að hið lága gengi krónunnar sem myndast hefur að undanförnu sé óraunhæft og má því segja að hér hafi ríkt stýrt flot frá þessum tíma. Það er hins vegar stefna stjórnvalda að leyfa krónunni að fljóta þegar lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum berst. Þykir allt benda til þess að þá muni gengi krónunnar lækka enn frekar tímabundið en síðan styrkjast á ný. Þessi tímabundna veiking kemur meðal annars til af því að þeir erlendu aðilar sem m.a. eiga krónubréf á Íslandi muni flytja mikinn gjaldeyri úr landi. Hins vegar er ekki hægt að segja til um það fyrirfram hversu lengi veikingin varir.
Á meðan krónan er veik, líkt og hún er nú, þá má búast við því að verðbólga haldist há þar sem innfluttar vörur verða dýrar í verði. Hins vegar þegar krónan styrkist á ný þá má búast við því að verðbólga hjaðni hratt.