Þýsk stjórnvöld sögðust í dag myndu lána tryggingasjóði innlána á Íslandi 308 milljónir evra, rúmlega 54 milljarða króna, svo hægt verði að greiða þýskum sparifjáreigendum, sem áttu fé inni á reikningum Kaupþings. Þetta kemur fram í viðtali sem þýska blaðið Tagesspiegel átti við Peer Steinbrück, fjármálaráðherra Þýskalands.
Talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins sagði við Reutersfréttastofuna, að um væri að ræða þá upphæð, sem Þjóðverjar hefðu átt inni á reikningum Kaupþings.
Bretland, Holland og Þýskaland sendu í vikunni frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kjölfar þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti að lána Íslandi 2,1 milljarð dala. Sögðust löndin myndu útvega Íslandi lánsfé til að hægt verði að standa við skuldbindingar við erlenda sparifjáreigendur, sem áttu fé á íslenskum bankareikningum.
Breska fjármálaráðuneytið hefur áætlað að það muni lána Íslandi 2,2 milljarða punda, jafnvirði 460 milljarða króna, og Holland segist gera ráð fyrir að upphæð sem Hollendingar eigi á íslenskum reikningum, sé 1,2-1,3 milljarðar evra, jafnvirði 212-230 milljarðar króna.
Kaupþing sagði í síðustu viku, að vonir stæðu til þess að hægt yrði að greiða þýskum sparifjáreigendum innistæður þeirra á næstu dögum eða vikum. Þýska fjármálaeftirlitið hefur stöðvað starfsemi Kaupþings í Þýskalandi tímabundið meðan unnið hefur verið að lausn þessara mála.