Tveir bankar í greiðslustöðvun

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagðist reikna með því að tveir af gömlu bönkunum muni sækja um greiðslustöðvun í næstu viku. Sagði Jónas, að með því gæfist lengri tími til að vinna úr eignum bankanna og koma þeim í verð.

Þetta kom fram hjá Jónasi í þættinum Markaðnum á Stöð 2 í dag. Sagði Jónas að með þessu móti yrði einnig hægt að fá lánardrottna gömlu bankanna að borðinu til að vinna með íslenskum stjórnvöldum að lausn mála.  Sagði Jónas æskilegt, að erlendir lánardrottnar komi að sem eigendur að bönkunum og mikilvægt fyrir framtíð bankanna að ná friði við lánardrottna.

Jónas sagði að mikilvægasta verkefnið framundan sé að vinna úr eignum bankanna og koma þeim í verð. Máli skipti að selja ekki eignirnar undir pressu þannig að þær fari á „brunaútsölu." Að því hafi Fjármálaeftirlitið verið að vinna.

Jónas sagðist í þættinum ekki hafa vitað um þær tillögur  norsks ímyndarfræðings til forsætisráðuneytisins, að vernda þurfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir fjölmiðlum. Hann sagðist hins vegar telja að ástæðan hefði verið að gríðarleg vinna hefur síðustu vikur hjá Fjármálaeftirlitinu og starfsmönnum þess við endurreisn bankakerfisins. Það hafi hins vegar tekist að koma í veg fyrir að bankaviðskipti stöðvuðust hér á landi, eins og hætta var á um tíma. 

Jónas sagði, að meginástæða bankakreppunnar hér á landi væri sú alþjóðlega lausafjárkreppa, sem skall á árið 2007 og hefði skilið eftir sig eyðileggingarslóð um allan heim.  Þá hefði bankakerfið hér verið mjög stórt í samanburði við efnahagslífið.

Hann sagði að íslensku bankarnir hefðu keypt eignir erlendis og því verið talsvert skuldsettir. Sjálfsagt hefði bakhjarl bankanna til þrautavara, Seðlabankinn, ekki verið nægilega sterkur. Íslenska krónan hefði síðan aukið á vandann.

„Ég held að við munum sjá að það voru gerð ýmis mistök í samfélaginu í leiðinni," sagði Jónas. „Við tókum við öllu frelsinu (með Evrópska efnahagssvæðinu) en erum ekki með sama öryggisnetið og þjóðir, sem eru innan Evrópusambandsins."

Hann sagðist ekki geta svarað því hvort það hefði bjargað íslenska bankakerfinu ef Ísland hefði verið í ESB. Hins vegar sagði hann aðspurður ljóst að evrópski seðlabankinn hefði verið mikill styrkur fyrir íslenska fjármálakerfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK