Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings Banka í Lúxemborg fara fyrir hópi fjárfesta sem vilja kaupa Kaupþing í Lúxemborg. Er stærsti hluti hópsins erlendir fjárfestar að því er fram kom í fréttatíma Stöðvar 2.
Þetta fékkst ekki staðfest hjá skilanefnd Kaupþings. Ekki náðist í Sigurð Einarsson né Magnús Guðmundsson.
Samkvæmt upplýsingum frá skilanefndinni hafa fjárfestar nokkurn áhuga á að eignast starfsemi bankans í Lúxemborg. Kaupþing Lúxemborg sé í söluferli og nokkrir hafi skoðað fyrirtækið. Þó sé ekkert tilboð komið fram.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir fund með Yves Leterme, forsætisráðherra Belgíu, 17. október síðastliðinn, að rætt væri um að endurreisa Kaupþing í Lúxemborg, væntanlega í smækkaðri mynd, og sjá til þess að hann gæti séð um sínar skuldbindingar.
Kaupþing í Lúxemborg rak einnig útibú í Genf.