Danskir fjárfestar hafa ekki áhuga á að kaupa hótelin D´Angleterre, Kong Frederik og Front í Danmörku að mati sérfræðinga, samkvæmt frétt á fréttavefnum business.dk. Erlendir aðilar eru sagðir koma helst til greina sem kaupendur, og þá fyrir niðursett verð.
Hótelin eru í eigu íslenska félagsins Nordic Partners. Segir í frétt business.dk að eftir bankahrunið á Íslandi hafi orðrómur verið sterkur um sölu hótelanna. Hinir hugsanlegu erlendu kaupendur hafi væntanlega mestan áhuga á því að komast yfir hótelin og skilja rekstur þeirra frá húseignunum. Eru fjárfestingarfélög frá Þýskalandi, Hollandi og Austurríki helst nefnd til sögunnar.
D´Angleterre hótelið er eitt þekktasta hótel Norðurlanda, staðsett á besta stað við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn. Helsti eigandi Nordic Partners er Gísli Reynisson. Ekki hefur komið fram hvað félagið greiddi fyrir hótelin þrjú í september á síðasta ári. Í frétt business.dk. segir að sérfræðingar telji að verðið hafi án efa verið nálægt einum milljarði danskra króna. Við núverandi aðstæður sé hins vegar útlit fyrir að söluverðið verði umtalsvert lægra. Eigendurnir muni því væntanlega tapa hundruðum milljóna danskra króna.
Fram kom í viðtali við Gísla Reynisson fyrr í þessum mánuði við business.dk að hluti af fjármögnun kaupanna á hótelunum hafi komið frá Landsbankanum, sem nú er í eigu íslenska ríkisins. Þó liggi ekki fyrir upplýsingar um hve stór hlutur Landsbankans sé. Nordic Partners hafi ekki birt uppgjör frá árinu 2004, en þá hafi Landsbankinn Lúxemborg átt liðlega 53% hlut í félaginu. Eignarhluturinn kunni að hafa breyst frá þeim tíma. Segir í fréttinni það eftirtektarvert hvað banki hafi átt stóran hlut í hótelkaupnum á sínum tíma, nokkuð sem dönsk yfirvöld hefðu ekki leyft.