Verð á hráolíu lækkaði á ný í dag þegar fjárfestar innleystu hagnað vegna hækkunar í gær. Verð á olíu til afhendingar í janúar lækkaði um 3,73 dali tunnan í 50,77 dali á NYMEX markaðnum í New York í kvöld. Í Lundúnum lækkaði Brent Norðursjávarolía um 3,73 dali tunnan og lokaði í 50,77 dölum.
Í síðustu viku fór verð á hráolíu niður fyrir 50 dali tunnan og hefur ekki verið lægra í tæp fjögur ár í Lundúnum en fjárfestar óttast mjög áhrifin af efnahagslægðinni sem nú ríður yfir heiminn á hrávörumarkað, svo sem verð á hráolíu. Ekki eru nema fjórir mánuðir síðan verð á hráolíu náði hámarki í rúmum 147 dölum tunnan.
Fulltrúar helstu olíuríkja heims, OPEC-samtökin, ætla að hittast á aukafundi um helgina og þykir líklegt að í kjölfarið muni þau tilkynna um niðurskurð á olíuframleiðslu.