Fjármálasérfræðingurinn Max Keiser, veltir fyrir sér í grein sem birtist á vefnum Huffington Post hvað gerðist á Íslandi. Hann rifjar upp í greininni er hann ferðaðist til Íslands í apríl í fyrra til þess að rannsaka kraftaverkahagkerfið eins og það var kallað. Hvernig íslensk fyrirtæki og bankar gátu eignast jafn mikið og raun bar vitni af hátískufyrirtækjum í Bretlandi. Hvaðan komu peningarnir?
Keiser, sem meðal annars starfar með BBC, Al Jazeera, France24, PressTV, Radio France International, segir að allir þeir sem hann hitti á Íslandi hafi gefið honum flóknar og ósennilegar skýringar á kraftaverkahagkerfinu. Hann segist hafa óttast að skýringin væri um einfaldari heldur en Íslendingar vildu vera að láta og um spákaupmennsku væri að ræða. Fjármunir sem væru fljótir að hverfa þegar þrengir að.
Hann segist hafa spurt yfirmann greiningardeildar Kaupþings um hvað gæti gerst ef bólan myndi springa, hvort fólk myndi rísa upp og mótmæla líkt og gerðist á níunda áratug átjándu aldar. Svarið sem hann fékk var hlátur. En í dag er það raunin, Íslendingar krefjast byltingar.
Lýsir hann því sem Íslendingar mótmæla í dag: hruni bankakerfisins og gjaldmiðilsins, krónunnar sem hefur tapað um helmingi af virði sínu á árinu. Að íslenska ríkið hafi neyðst til þess að yfirtaka þrjá stærstu bankana í síðasta mánuði þegar þeir gátu ekki greitt skuldir sínar upp á milljarða dala, fjármuni sem voru teknir að láni til þess að fjármagna útrásina.
Segir hann að kreppan eigi sér ekki rætur í kraftaverki heldur í svikum. Nú hafi Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og norrænu ríkin gripið inn með því að veita Íslandi neyðarlán og það muni talsverður tími líða þar til Íslendingar falli á ný fyrir gylliboðum um „fría máltíð" að nýju. Því fyrir hrunið hafi þjóðsagan um kraftaverkahagkerfið verið seld almenningi af bankamönnum og fjölmiðlum.
Keiser fjallar í grein sinni um hversu mikið Íslendingar vinna eða að meðaltali fimmtíu klukkustundir á viku. Sem samsvari því að Íslendingar vinni sex vikum meira á ári heldur en til að mynda Danir. Með öðrum orðum, Íslendingar eru evrópskt land með bandarískan vinnumarkað. Vinnuframlagið sé svipað því að á Íslandi búi 500 þúsund manns, ekki þrjú hundruð þúsund og bætir við að Íslendingar hafi trúað á kraftaverkahagkerfið eða með orðum á Ofurmennið og hagkerfi þess.