Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir hagvaxtarskeiði á Íslandi þegar kreppunni lýkur, væntanlega árið 2010. Spáir sjóðurinn því, að hagvöxtur verði í kringum 4,4% á ári á tímabilinu 2011-2013.
Þetta kemur fram í skýrslu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti í gærkvöldi. Greining Glitnis segir, að þetta sé til marks um, að gjaldeyrissjóðurinn telji íslenska hagkerfið þrátt fyrir allt njóta góðs af öfundsverðum langtímahorfum.
Gjaldeyrissjóðurinn gerir einnig ráð fyrir því að atvinnuleysi fari minnkandi á þessum árum. Það nái hámarki 2010 og verði þá 6,9% að meðaltali, verði síðaan 5,4% 2011 og verði síðan 4% árið 2012 og 3% árið 2013. Þá gerir sjóðurinn ráð fyrir því að verðbólgan verði að jafnaði 2% á þessum árum.
Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins