Tap Straums fjárfestingarbanka eftir skatta nam 124,7 milljónum evra fyrir fyrstu níu mánuði ársins, jafnvirði 22,5 milljörðum íslenskra króna. Á þriðja ársfjórðungi nam tap á rekstri bankans 145,6 milljónum evra, jafnvirði nærri 26,3 milljarða króna eftir skatta. Fyrstu níu mánuði síðasta árs var 165 milljóna evra hagnaður af rekstrinum.
Í október var tapið 150,6 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 27 milljarða króna. Virðisrýrnun eigna, vegna atburða á íslenskum og alþjóðlegum mörkuðum, nam 244,6 milljónum evra, jafnvirði 44 milljarða króna.
Haft er eftir William Fall, forstjóra Straums, í tilkynningu, að markaðsumhverfi á fjármálamörkuðum hafi hefur einkennst af vaxandi erfiðleikum síðan í júní 2007. Þá hafi þróunin á Íslandi haft neikvæð áhrif á flestar fjármálastofnanir, þar á meðal Straum. Engu að síður hafi bankinn þraukað í þessu fárviðri og sé nú í þeirri aðstöðu að geta horft fram á veginn.
„Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er ég þess fullviss að endurskoðun viðskiptalíkans Straums og sterk eiginfjárstaða bankans geri bankanum kleift að þróa viðskipti sín í samræmi við yfirlýsta stefnu sína sem er áhersla á tekjur af þjónustu við viðskiptamenn, dreifa tekjuleiðum og draga úr áhættu á efnahagsreikningi," segir Fall í tilkynningunni.
Á þriðja ársfjórðungi námu tekjur af þjónustu við viðskiptamenn námu 41,3 milljónum evra en tap af fjárfestingum nam 73,6 milljónum evra. Rekstrarkostnaður nam 30,7 milljónum evra. Virðisrýrnun nam 106,8 milljónum evra. Bankinn hefur sambankalán á gjalddaga í desember og segir fjármögnun á lokastigi.