Hætt hefur verið við sölu á 5,49% eignarhlut Kaupþings í norska tryggingafélaginu Storebrand, sem boðuð var í gær. Í ljós kom að bústjóri Kaupþings í Noregi var andvígur sölunni. Gengi bréfa Storebrand hefur hækkað um 10% í kauphöllinni í Ósló í dag.
Dótturfélag Kaupþings í Noregi var sett undir skilanefnd þegar íslenska Fjármálaeftirlitið greip inni í rekstur móðurfélagsins á Íslandi. Þá gerði tryggingasjóður banka lögtak í eignum útibúsins en meðal þeirra eigna var stór eignarhlutur í Storebrand.
Í gær tilkynnti skilanefnd norska bankans 24,7 milljónir hluta yrðu seldar í svonefndri „book-building" sölu. Var sölutímabilið frá því að lokað var fyrir viðskipti í kauphöllinni í Ósló í gær og þar til viðskipti hæfust í morgun.
Fram kemur á vefnum Dagens Næringsliv, að í morgun sendi bústjórn norska Kaupþingsbankans hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem lagst er gegn sölunni. Því ákvað skilanefndin að hætta við.