Seðlabankinn hefur afturkallað tilmæli frá því snemma í október um tímbundna temprun á útflæði gjaldeyris. Það þýðir, að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu. vöxtum, verðbótum og afborgunum af lánum.
Seðlabankinn hefur frá bankahruninu, átt viðskipti með gjaldeyri úr gjaldeyrisforða sínum með
daglegum uppboðum til að liðka fyrir gjaldeyrisviðskiptum, sem gengu
stirðlega, m.a. vegna þrenginga í greiðslumiðlun. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum verður slíkt uppboð í dag og því hefur krónan ekki verið sett á flot enn.
Alþingi staðfesti í nótt frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál. Þar er Seðlabankanum heimilað, að höfðu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur um takmarkanir á fjármagnsflutningum á milli landa. Þessi heimild hefur nú verið nýtt. Reglurnar verða endurskoðaðar fyrir 1. mars 2009.
Seðlabankinn segir, að tilgangurinn
með reglunum sé að takmarka um sinn útflæði gjaldeyris sem gæti haft
neikvæð áhrif á endurreisn stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Í reglunum
felist m.a. að þeim sem eignast erlendan gjaldeyri sé skylt að skila
honum til innlendra fjármálafyrirtækja þótt heimilt verði að leggja
hann inn á innlánsreikning í erlendri mynt. Takmarkanir eru settar á
fjármagnshreyfingar aðila sem hyggjast skipta íslenskum krónum í
erlendan gjaldeyri.
Einnig felst í reglunum að viðskipti á
milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf og aðra fjármálagerninga,
sem gefin eða gefnir hafa verið út í íslenskum krónum, eru óheimil.
Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa fyrir milligöngu innlendra aðila
verðbréf sem gefin hafa verið út í krónum. Þetta á þó ekki við um
erlenda aðila sem þegar eiga krónur. Einnig er erlendum aðilum óheimilt
að gefa út verðbréf hér á landi.
Innlendum aðilum er jafnframt óheimilt
að fjárfesta í erlendum verðbréfum. Erlend lántaka, ábyrgðaveitingar
til erlendra aðila og afleiðuviðskipti sem ekki tengjast vöru- eða
þjónustuviðskiptum eru takmörkuð eða óheimil. M.a. er óheimilt að flytja út gjaldeyri í reiðufé umfram jafnvirði 500.000 krónur hjá hverjum aðila í hverjum almanaksmánuði.
Í fyrstu viku desember verður efnt til útboða á ríkisbréfum. Erlendir fjárfestar sem eiga ríkisbréf á gjalddaga 12. desember n.k. geta m.a. endurfjárfest andvirði þeirra í nýjum ríkisbréfum.
Seðlabankinn segir, að hömlunum sem beitt sé nú á
grundvelli nýsettra laga, nái til gjaldeyrisviðskipta sem tengjast
fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa. Þær séu
nauðsynlegur hluti ráðstafana sem miði að því að koma á stöðugleika á
gjaldeyrismarkaði. Þær verði afnumdar svo fljótt sem aðstæður leyfa.