Það er ekki hátt risið á bandarísku bílaverksmiðjurisunum þremur, GM, Ford og Chrysler, núna þegar óðum styttist í 100 ára afmæli hins eiginlega bandaríska bílaiðnaðar. Árið 2010 er liðin öld frá því að Henry Ford hóf að framleiða fyrstu bílana í Higland Park í Detroit og bylti öllum framleiðsluiðnaði þremur árum síðar með fjöldaframleiðslu bíla á færiböndum. Nú er þessi iðnaður sem löngum var tákn hinnar bandarísku velgengni, kominn að fótum fram - fórnarlamb fjármálahrunsins fyrst og fremst að því er forsvarsmenn hans segja.
Forstjórar bílarisanna þriggja hafa heldur ekki verið upplitsdjarfir þegar þeir ganga á betliskónum fyrir bandaríska þingið til að grátbiðja þingmenn um milljarða dollara lán til þess eins að lifa út árið. Niðurlæging þeirra er slík að nú halda þeir til höfuðborgarinnar akandi á tvinnbílum frá fyrirtækjunum í stað einkaþotanna sem þeir komu á í fyrra mánuði í fyrstu betliferðinni. Þá voru þeir hafðir að háði og spotti af bæði þingmönnum og fjölmiðlum fyrir farkosti sína og sendir aftur heim til að vinna heimavinnuna betur.
„Ég held við höfum mikið lært af þeirri reynslu,“ hefur AP fréttastofan eftir Alan Mulally, forstjóra Ford sem hefur ásamt Rick Wagoner, forstjóra General Motors (GM) sagst mundu lækka laun sín í 1 dollar á ári, ef þingið kastar til þeirra bjarghringnum. Í þetta skiptið eru þeir líka betur undirbúnir. Óskir þeirra í síðasta mánuði þóttu óljósar og ómarkvissar en nú er áætlunin nákvæmar útfærð og lánsbeiðnin í heild hljóðar upp á 34 milljarða dala.
Innspýting þegar í stað
Þingið er nú að fara yfir hugmyndir bílaframleiðendanna og mun að því búnu ákveða hvort kalla þurfi forstjórana þrjá aftur til Washington til að skýra einstök atriði lánsbeiðninnar frekar. Í gögnunum sem lögð voru fyrir þingið í gær, þriðjudag, kemur fram að bæði GM og Chrysler þurfa innspýtingu fjár þegar í stað til að halda fyrirtækjunum gangandi fram yfir áramót, og forstjórar þeirra beggja, Wagoner og Bob Nardelli frá Chrysler, fullyrða að falli þessi fyrirtæki muni þau taka allan bifreiðaiðnaðinn í Bandaríkjunum með sér í fallinu.
Ford hefur óskað eftir 9 milljarða dala opinni lánalínu sem fyrirtækið gerir þó ekki ráð fyrir að þurfa að nota nema hinir tveir risarnir falli fyrir borð. Chrysler segist þurfa 7 milljarða dala fyrir áramót til að halda sér gangandi, og GM þurfa 4 milljarða þegar í stað af 12 milljarða dala láni auk þess 6 milljarða dala lánalínu sem það geti gripið til ef enn syrtir í álinn í bandarísku efnahagsumhverfi. Forstjórar þessara tveggja hafa dregið upp svörtustu myndina - um lokun fjölda verksmiðja og fjöldauppsagnir ef þingið grípi ekki inn í þegar í stað.
Reiptog í þinginu
Stuðningur við bifreiðaiðnaðinn er meiri meðal demókrata í þinginu heldur en repúblikana og vitað er að Barack Obama, verðandi forseti, er hlynntur stuðningnum. GM segist hins vegar svo fjárþurfi að fyrirtækið geti ekki beðið eftir forsetaskiptunum.
Gagnrýnendur úr röðum repúblikana og reyndar einhverjir demókratar einnig halda því fram að fjármálakreppan sé ekki eina ástæðan fyrir því hvernig er komið fyrir bílaverksmiðjunum. Á BBC-vefnum segir að þessir haldi því fram að framleiðsla GM, Ford og Chrysler sé óhagkvæm, og launakostnaður hærri en hjá erlendum keppinautum. Aðrir gagnrýnendur innan þingsins vilja tryggja að stuðningnum við bílafyrirtækin fylgi skilyrði um vistvænni stefnu þeirra, þar á meðal um ströng eldsneytiseyðslumörk.
Flestir telja að GM sé „of stórt til að falla“ meðan Chrysler kunni að verða knúið til sameinast stærri keppinaut. Heimildarmenn sem þekkja vel til hjá GM segja að þar á bæ íhugi menn að selja frá sér Pontiac, Saturn og Saab gerðirnar. Fram hefur komið að Ford hefur sömuleiðis viðrað að Volvo kunni að vera til sölu, en á Bloombergvefum í dag er sagt að sænskt stjórnvöld lýsi því afdráttarlaust yfir að ekki komi til greina af þeirra hálfu að kaupa sænsku verksmiðjurnar en útilokar ekki fjárstyrk til þeirra.
Óljóst er hvenær þingið mun kjósa um björgunaraðgerðirnar. Skoðanamunur er talsverður milli obba demókrata og repúblikana hvernig fjármagna eigi aðstoðina. Demókratar segja fé eiga að koma frá 700 milljarða dala björgunarpakkanum sem þingið samþykkti á dögunum en samkvæmt því sem segir á Bloomberg-vefnum þvertekur Carlos Gutierrez viðskiptaráðherra í Bush-stjórninni fyrir það og segir þann pakka eyrnamerktan fjálmálageiranum og endurreisn hans. Innan núverandi stjórnar hefur verið gefin ádráttur um að veita til bílaiðnaðarins um 25 milljörðum dala sem þegar séu fráteknir fyrir hann í fjárfestingasjóði á vegum ríkisins til vistvænna umbóta, en gegn því leggjast þingmenn demókrata í fulltrúadeildinni.
Því kann svo að fara að teygist á ákvörðun þingsins þar til ný fulltrúadeild þingsins með auknum meirihluta demókrata tekur til starfa 6. janúar á nýju ári.
Þá er spurningin hvort GM og Chrysler lifi þá seinkun af.