Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir marga kosti við það að útlendingar eignist hlut í íslenskum bönkunum en brýnt sé þó að ríkið eigi áfram í bönkunum. Fram kom í sjónvarpsfréttum RÚV að ríkisstjórnin vill bjóða erlendum kröfuhöfum hlut í nýju bönkunum og að tveir vinnuhópar á vegum fjármálaráðuneytisins vinni að útfærslu á þessu auk skilanefnda gömlu bankanna.
RÚV hafði eftir Árna Tómassyni, formanni skilanefndar Glitnis, að í raun eigi kröfuhafar, sem flestir eru erlendir, bæði gömlu og nýju bankana. Formlegar viðræður við kröfuhafa hefjast 11. desember skv. upplýsingum Árna.
Viðskiptaráðherra sagði á RÚV margt mæla með því að erlendir kröfuhafar eignist hlut í íslensku bönkunum. Það myndi treysta stoðir bankanna, þeir fengju meiri aðgang að erlendu lánsfé, íslenskt fjármálalíf myndi endurheimta traust á alþjóðavettvangi, fjármálaleg tengsl yrðu endurreist og samkeppni yrði meiri.
Forstjóri Saga Capital fjárfestingabanka lýsti þeirri skoðun sinni á RÚV að einnig ætti að bjóða íslenskum kröfuhöfum hlut í bönkunum.