Ragnar Zophonías Guðjónsson, sparisjóðastjóri Byrs, segir æskilegt að áætlun um samruna sparisjóðanna þriggja verði kláruð fyrir árslok. „Ég býst fastlega við að áætlun um samruna verði tilbúin fyrir árslok. Menn munu leggja niðurstöðuna fyrir fund stofnfjáreigenda í febrúar. Við reynum að vinna þetta eins hratt og mögulegt er,“ segir Ragnar.
Stjórnir Sparisjóðsins í Keflavík, Byrs sparisjóðs og SPRON hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að hefja undirbúning og vinnu sem miðar að því að sameina sparisjóðina. Sparisjóðirnir hafa skuldbundið sig til að ræða ekki við aðra aðila um samstarf eða sameiningu á meðan að viðræður standa yfir.
„Sparisjóðurinn er jákvæður fyrir sameiningarviðræðunum. Þessir þrír sparisjóðir eiga hvað mesta samleið og gangi sameiningin eftir verður til sterk eining í sparisjóðafjölskyldunni öllum sparisjóðum til hagsbóta, segir Geirmundur Kristinsson,“ sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík.
Ein stjórn - einn bankastjóri
„Staða sparisjóðanna hefur verið almennt séð í umræðunni á vettvangi sambands íslenskra sparisjóða og þar hafa menn verið að ræða framtíð þeirra,“ segir Ragnar aðspurður hver hafi átt frumkvæði að samrunaviðræðum. Hann segir að Byr hafi ávallt haldið þeirri umræðu á lofti að nauðsynlegt sé að sameina sparisjóði. „Við hófum ekki sérstaklega þessar viðræður, en öllum hefur verið kunnugt um okkar stöðu,“ segir Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON. Hann segir að SPRON hafi ávallt haft áhuga á sameiningu, enda felist mikil hagkvæmni í henni.
„Það liggur ekki fyrir á þessari stundu hver skiptingin verður í hinu nýja fyrirtæki enda viðræður á algjöru byrjunarstigi,“ segir Ragnar. Hann býst fastlega við að hið sameinaða fyrirtæki verði rekið með einni stjórn og forstjóra, en ekki sem sjálfstæðar einingar.
Sparisjóðirnir hafa mikla hagsmuni af því að samruni þeirra gangi í gegn. Svo dæmi sé tekið gerði SPRON Fjármálaeftirlitinu grein fyrir því í október að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins hefði lækkað töluvert í kjölfar hruns viðskiptabankanna og myndi fara undir lögbundið lágmark, það gerðist síðan fyrr í vikunni að SPRON tilkynnti að hlutfallið væri komið undir lögbundið lágmark, sem er 8%, en ef hlutfallið er undir 8% missir viðkomandi banki bankaleyfið. Guðmundur Hauksson segist ekki geta gefið upp hvert eiginfjárhlutfall bankans sé í dag. Hann segir að bankinn vinni að sínum málum góðri sátt við Fjármálaeftirlitið og önnur stjórnvöld og sé ekki á leiðinni að fara að missa bankaleyfið. SPRON gerði sem kunnugt er samkomulag við Kaupþing um samruna skömmu fyrir bankahrunið, en fallið var frá því nokkru síðar, enda forsendur fyrir samruna brostnar.
Byr varð til í desember 2006 þegar Sparisjóður Vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar sameinuðust. Í nóvember 2007 bættist Sparisjóður Kópavogs við og í apríl á þessu ári rann Sparisjóður Norðlendinga inn í fyrirtækið.