Starfsmenn vogunarsjóðanna skvettu þvílíkt úr klaufunum á næturklúbbi í New York að það var líkast því að ekki kæmi dagur eftir þennan dag - sem var nú líklega raunin varðandi marga þeirra.
Martiníið og vodkinn flæddi um Nikki Beach klúbbinn sem var svo troðinn að þjónarnir með bakkana á lofti, hlaðna tapas-réttunum, strönduðu í mannþrönginni sem hreyfðist í takt við tónlistina í bleikri ljósskímunni.
Um 650 gestir sóttu fagnaðinn á miðvikudagskvöld, þriðjungi fleiri en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir.
Með vogunarsjóðina í frjálsu falli var samkundan líkari erfidrykkju en fagnaði.
„Bransinn hefur fallið um 20%. Þetta eru verstu aðstæður sem við höfum staðið frammi fyrir og við munum sjá á eftir fjölda sjóða fara í þrot“, sagði Evan Rapoport, annar stofnenda HedgeCo Network, fyrirtækis sem þjónustar vogunarsjóðina og stóð fyrir samkvæminu.
Kvöldinu var stillt upp sem tengslamóti. „Fjöldi fólks er á höttunum eftir vinnu,“ sagði Nicole Alexander frá Ovation Group, ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í þjónustu við fyrirtæki.
„Það er engin skömm núna vegna þess hversu margir hafa misst vinnuna,“ sagði hún. „Nýjasti brandarinn er að stöðutáknið í dag sé ekki Ferrari eða Porsche heldur sjúkratrygging og skrifborð.“
Áætlað er að í lok næsta árs hafi 48.000 störf tapast í Wall Street. Vogunarsjóðirnir sem löngum hafa stært sig af þolgæði, fara yfir um hver á eftir öðrum.
Ný skýrsla frá Morgan Stanley spáir því að eignir í umsýslu vogunarsjóða á heimsvísu muni hafa fallið í 900 milljarða dala fyrir lok ársins 2009 sem er einungis helmingurinn af því sem var þegar best lét fyrr á þessu ár.
Meðan viðskiptamenn sjóðanna eru á harðahlaupum í leit að útgönguleiðum hafa æ fleiri sjóðir gripið til þeirra örþrifaráða að setja takmarkanir á úttektir fjármuna.
Í augum aðdáenda eru vogunarsjóðamenn áhættusæknir og hagnaðarsólgnir kaupahéðnar sem geta lagt mikið undir vegna þess að þeir skipta aðeins við alvöru spilara.
Gagnrýnendur segja á hinn bóginn vogunarsjóðina holdgervinga regluverks-annmarka, yfirskuldsetningar og græðgidrifinna viðskiptahátta sem eigi mesta sökina á bandarísku fjármálakreppunni.
Á hvorn veginn sem er þá er tilfinningin sú að þessir meistarar alheimsins eins og Tom Wolf kallaði þá í skáldsögu sinni, Bálkesti hégómans (Bonfire of the Vanities), fagni ekki mikið lengur.
Í afneitun
„Þeir eru að fela skelfinguna,“ sagði ónefndur sjóðstjóri á Nikki Beach, þar sem hann horfði yfir starfsfélaga sína með glösin í hendinni. „Gamanið er búið en þeir eru í afneitun. Fullt af fólki á eftir að fá áfall.“
„Þetta hefur verið erfitt ár,“ sagði Mitchel Manoff, forstjóri vogunarsjóðsins Corinthian Partners. „Vogunarsjóðasamfélagið segist geta grætt peninga við allar markaðsaðstæður. Þetta árið hefur svo ekki verið“
Auðvitað er hagnað að hafa jafnvel á erfiðum tímum.
Nikhil Khandelwal hjá ThornWood Capital lýsir því kampakátur hvernig fyrirtæki hans takist að krefja viðskiptavini um stöðugt hærri vexti af lánum sem bankarnir vilji ekki.
„Hin dapurlega staðreynd er að við græðum peninga meðan aðrir tapa þeim,“ segir hann alls ekki dapur í röddinni.
Khandelwal, klæddur teinóttum jakkafötum, hefur enga samúð með öðrum í valnum. „Þú kemur til starfa í vogunarsjóðnum til að vinna þér inn fúlgur fjár svo að þú veit hver áhættan er.“
Vaxandi þrýstingu
Vogunarsjóðafyrirtækin eru undir vaxandi þrýstingi frá stjórnvöldum í Washington í kjölfar sigurs Baracks Obama í forsetakosningunum þar sem klifað var á strangara regluverki í sífellu.
Rapoport sagði kreppuna þegar hafa haft þau áhrif að sjóðirnir séu að endurskoða starfshætti sína og gerir ráð fyrir að þessi grein muni birtast á ný minni en ennþá heilbrigðari og laus undan skuldaklafanum.
„Það verður allt rifið niður og endurbyggt, en endurbyggingin verður miklu sterkari,“ Þegar búið verði að hreinsa út áhrifin af yfirskuldsetningunni geti horfunar ekki orðið annað en jákvæðar.
Steve Tosi hjá Magna Securities er sammála.
Hann minnti á að starfsmannastjóri Obama, Rahm Emanuel hafi sjálfur starfað í fjármálageiranum í tvö og hálft mjög ríkuleg ár og fengið framlög frá vogunarsjóðum til kosningabaráttunnar.
Vogunarsjóðirnir hafa „leikið vel pólitískt“ sagði Tosi. „Munu þeir verða þrúgaðir af regluverki? Mun þeim verða sagt að þeir séu slæmir, að þeir græði of mikla peninga? Mun Obama segja það? Ég held nú ekki.“