Fons átti FS37 sem varð Stím

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson. mbl.is/Þorkell

FS37 ehf., sem síðar var endurnefnt Stím, var í eigu Fons. Þetta kemur fram í ársreikningi annars félags, FS38 ehf.. Eini hluthafinn í FS38 ehf. er Fons, eignarhaldsfélag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, og félagið er skráð til heimilis í höfuðstöðvum Fons að Suðurgötu 22 í Reykjavík. Fons átti því bæði félögin.

FS37 ehf. keypti bréf í Glitni og FL Group fyrir samtals 24,8 milljarða króna þann 14. nóvember 2007. Félagið breytti nafni sínu í Stím ehf. tveimur dögum síðar. Glitnir var sjálfur seljandi bréfanna en lánaði Stím 19,6 milljarða króna til kaupanna. Stærsti eigandi Glitnis var FL Group sem í dag heitir Stoðir. Fons var á meðal stærstu eigenda FL Group sem átti um þriðjungshlut í Glitni.

FS38 lánaði FS37 fyrir hluta af kaupum

Samkvæmt ársreikningi lánaði FS38 tengdum aðila, FS37 sem síðar varð Stím, 2,5 milljarða íslenskra króna árið 2007 með einum gjalddaga á árinu 2008. Í ársreikningnum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, stendur orðrétt að „félagið [FS38] hefur lánað FS37 ehf. sem er í eigu Fons hf. 2.500 milljónir króna með einum gjalddaga á árinu 2008. Lánið er víkjandi fyrir öðrum lánum FS37 ehf. Miðað við eignastöðu FS37 ehf. er verulegur vafi um innheimtanleika kröfunnar.“

Stím ehf. hefur verið mikið í umræðunni á undanförnum dögum vegna ógagnsærra viðskiptahátta. Eini stjórnarmeðlimur félagsins var skráður Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður frá Bolungarvík, og félagið var skráð til heimilis hjá Saga Capital á Akureyri. Jakob vildi í fyrstu ekkert láta uppi um eignarhald á félaginu en eftir mikla umfjöllun fjölmiðla sendi hann frá sér yfirlýsingu. Í henni sagði Jakob að hann og fleiri fjárfestar hefðu keypt í Stími eftir að starfsmenn Glitnis hefðu kynnt þetta viðskiptatækifæri fyrir þeim.

Í hnotskurn
» 23. október 2007 er FS37 stofnað. Það félag var í eigu Fons.
» 14. nóvember keypti FS37 hlutabréf í Glitni og FL Group af Glitni fyrir 24,8 milljarða. FS38 og Glitnir lánaðu FS37 90 prósent af kaupverðinu.
» 16. nóvember er haldinn hluthafafundur í FS38 þar sem stjórn félagsins er kosin. Sama dag er nafni FS37 ehf. breytt í Stím ehf.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka