Eyrir Invest, stærsti hluthafinn í Marel, skilaði 942 milljóna króna hagnaði fyrstu 10 mánuði þessa árs. Eigið fé félagsins er rúmlega 30 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfallið 40,3%. Laust fé og aðrar bankainnistæður nema 8,624 milljónum, að því fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Þar segir jafnframt að Eyrir hafi ekki orðið fyrir neinu beinu tóni af falli íslensku bankanna og að félagið muni gera bókhald sitt upp í evrum frá og með 1. janúar n.k
Eyrir Invest hefur verið fjárfestir í Marel Food Systems og Össuri frá árinu 2004 og er stærsti hluthafi Marels með tæplega 40% útgefins hlutafjár og næst stærsti hluthafi Össurar með 20% útgefins hlutafjár. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs skiluðu Marel Food Systems og Össur metafkomu. Atvinnugreinar þessara fyrirtækja; heilbrigðis- og matvælaiðnaður hafa í gegnum tíðina sýnt minni næmni fyrir efnahagssveiflum en flestar aðrar atvinnugreinar.
Landsbankinn verður hluthafi í Eyri
Eyrir, Landsbankinn og breska fjárfestingafélagið Candover luku yfirtöku á iðnaðarsamsteypunni Stork í janúar á þessu ári í gegnum sameiginlegt eignarhaldsfélag, London Acquisition. Heildarvirði kaupanna var 1,7 milljarður evra.
Samningar hafa tekist á milli NBI (Nýja Landsbankans) og Eyris um að Eyrir taki yfir eignarhlut NBI í London Acquisition. Eignarhlutur Eyris í Stork eftir þau viðskipti er ríflega 17%. Eyrir greiðir fyrir eignarhlutinn í Stork með nýju hlutafé í félaginu og eignast NBI 27,4% af útgefnu hlutafé í Eyri við þau viðskipti.
Marel, Össur og Stork skiluðu methagnaði það sem af er þessu ári eftir mikinn vöxt undanfarin ár.