Bakkabræður taka yfir Exista

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stærstu hluthafar í Exista …
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stærstu hluthafar í Exista í gegnum félagið Bakkabræður. Þeir hafa nú tekið félagið yfir í heild sinni. mbl.is / Brynjar Gauti

BBR ehf. félag í eigu Lýðs Guðmundssonar og Ágústs Guðmundssonar skráði sig í dag fyrir 50 milljörðum hluta í Exista. Bræðurnir urðu í kjölfarið yfirtökuskyldir. Fyrir viðskiptin í dag átti Bakkabraedur Holding B.V., annað félag í eigu Lýðs og Ágústs, 6,4 milljarða hluti. Eftir viðskiptin eiga félög tengd Lýð og Ágústi samtals 56,4 milljarða hluti í Exista sem nemur 87,8% af heildarhlutafé félagsins.

Tillaga um niðurfærslu hlutafjár
Í samræmi við samþykkt hluthafafundar Exista frá 30. október ákvað stjórn félagsins að auka hlutafé í félaginu um 50 milljarða hluta í skiptum fyrir 1 milljarða hluta í Kvakki ehf. Þessi viðskipti fela í sér að eigendur Kvakks ehf., Ágúst og Lýður, leggja Exista til 1,0 milljarð króna í reiðufé. Stjórn Exista mun leggja til við hluthafafund síðar í þessum mánuði að hlutafé verði fært niður um allt að 98%. Niðurfærsla hlutafjár þýðir að fjöldi hluta Exista fer úr rúmlega 64 milljörðum hluta niður í rúmlega 1,2 milljarða hluta. Jafnframt hyggst stjórnin leggja fram tillögu um heimild til hlutafjáraukningar í formi forgangsréttarútboðs til hluthafa á næsta ári.

BBR verður yfirtökuskylt í kjölfar viðskipta dagsins og þarf á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti að leggja fram yfirtökutilboð til hluthafa í Exista. Í ljósi sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum og þess að lokað hefur verið fyrir viðskipti með hlutabréf í Exista um níu vikna skeið mun BBR  fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að veitt verði undanþága frá ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti um lágmarksverð í yfirtökutilboði, að því er fram kemur í tilkynningu.

Mun BBR  óska þess að lagt verði til grundvallar það verð sem BBR ehf. greiðir fyrir hina nýju hluti í Exista, sem jafnframt er hæsta verð sem BBR og Bakkabraedur Holding B.V hafa greitt fyrir hluti í Exista á síðastliðnum sex mánuðum. Þannig mun BBR  óska þess að fallið verði frá skilyrðum um að tilboðsverðið skuli að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í Exista daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð. Þetta er gert vegna þess að lokað hefur verið fyrir viðskipti með Exista síðan 6. október 2008, þannig að síðasta dagslokaverð hlutabréfa Exista gefur vart rétta mynd af verði hlutabréfa félagsins, segir í tilkynningu frá Exista.

Exista hefur, eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki, verið í nokkrum rekstrarerfiðleikum í kjölfar bankahrunsins en fyrirtækið var stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Nokkur óvissa hefur ríkt um framtíð Exista undanfarið og nýlega var hlutur þess í Bakkavör Group seldur til hlutafélags í eigu Ágústs og Lýðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK