Playboy fjölmiðlasamsteypan tilkynnti í dag að Christie Hefner væri að hætta hjá fyrirtækinu. Christie er dóttir Hughs Hefners og hefur gegnt stöðu stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins. „Um síðustu mánaðarmót hafði ég gegnt stöðu forstjóra í tuttugu ár,“ segir Christie Hefner í tilkynningu. „Núna þegar þessi þjóð að er að taka nýjum leiðtoga opnum örmum hef ég ákveðið að nú sé rétti tíminn til að gera breytingar í mínu lífi,“ segir Hefner, sem er 56 ára, en hún mun gegna starfi forstjóra til janúarloka á meðan stjórn Playboy er að leita að arftaka hennar.
„Ég hef átt ótrúlegan feril hjá Playboy. Ég átti aldrei von á því að starfa hjá fjölskyldufyrirtækinu, hvað þá að vera hér svona lengi, en ég hef notið þeirra áskorana og tækifæra sem ég hef fengið undanfarna áratugi,“ segir Hefner. Hún segir jafnframt að hún trúi því að rekstur fyrirtækisins sé vel í stakk búinn fyrir áframhaldandi vöxt í framtíðinni og að hún yfirgefi fyrirtækið með þá vissu að það sé í góðum höndum núverandi stjórnenda þess.
Faðir Christie Hefner, Hugh, stofnaði Playboy árið 1953 og segir að dóttir sín hafi unnið linnulaust til þess að þenja fyrirtækið út. Það hafi leitt til þess að fyrirtækið eigi fleiri viðskiptavini og aðdáendur í dag en á nokkrum öðrum tímapunkti í sögu þess. „Ég mun sakna leiðtogahæfileika hennar hérna, en ég trúi því að hún eigi eftir að njóta jafnvel enn meiri velgengni [annars staðar],“ sagði Hugh Hefner í tilkynningu frá Playboy.
Fyrir utan tímaritið rekur Playboy sérstakar sjónvarpsrásir og vefsíður. Fyrirtækið tilkynnti í síðasta mánuði um 5,2 milljóna dollara tap á þriðja ársfjórðungi þessa árs, á sama tíma og velta fyrirtækisins var 70,4 milljónir dollara, sem er nokkuð minni en 82,8 milljóna dollara velta á sama tímabili í fyrra. Fyrirtækið þurfti jafnframt að segja upp 100 starfsmönnum.