Johan Dahl, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Færeyja, gaf í dag út þrjú leyfi til olíuleitar á hafsbotninum í færeyskri lögsögu. Þrjú leyfi voru veitt til fimm fyrirtækja. Geysir Petroleum og Føroya Kolvetni fengu hvort sitt leyfið og hópur sem samanstendur af Statoil Færøyene, DONG Føroyar, Atlantic Petroleum og Føroya Kolvetni fékk eitt leyfi. Um er að ræða stærstu leyfisveitinguna í Færeyjum til þessa.
Um er að ræða heimild til rannsókna á 6,5 ferkílómetra svæði. Samkvæmt skilmálum leyfisveitinganna duga leyfin í 3 til 6 ár. Verður tímabilunum skipt í smærri áfanga og tekin ákvörðun í lok hvers áfanga um hvort viðkomandi leyfishafi fái heimild til að halda áfram í næsta áfanga.
Leyfi til leitar felur í sér heimild til handa leyfishafa að framkvæma grunnar boranir, þ.e með sýnatöku úr efstu jarðlögum hafsbotnsins, til dæmis með grunnum borunum eða töku kjarna.