Greining Glitnis reiknar með því, að gengi krónunnar muni styrkjast enn á næstunni. Í dag hefur gengisvísitalan lækkað um 4,4% og er komin niður í rúm 195 stig. Alls hefur krónan hækkað um rúmlega 21% frá því hún var sett á flot á fimmtudag.
„Flot með ankeri er það kerfi kallað sem nú er við líði á gjaldeyrismarkaði. Höft eru á stærstum hluta fjármagnsflutninga en gjaldeyrisviðskipti vegna vöru og þjónustuviðskipta frjáls. Afgangur af vöru og þjónustujöfnuði við útlönd við það gengi sem nú er og var við upphaf þessa kerfis stuðlar að hækkun krónunnar. Gengi krónunnar er enn nokkuð lágt m.v. það sem þarf til að tryggja jafnvægi á þessum viðskiptum. Reikna má með því að krónan leiti í átt að þessu jafnvægi á næstunni og að hún muni því styrkjast frekar," segir í Morgunkorni Glitnis.