Poul Thomsen, helsti sérfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í íslenskum málefnum, segist á heimasíðu sjóðsins búast við því að íslenskt efnahagslíf verði fljótt að rétta úr kútnum. Hann segir, að endurskipulagning íslenska bankakerfisins, sem nú stendur yfir, kunni að vera sú dýrasta í mannkynssögunni í hlutfalli við stærð hagkerfisins.
„Það leikur enginn vafi á því, að Ísland mun eiga við mikla erfiðleika að etja næstu tvö árin," segir Thomsen í viðtali við vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann segir að þótt takist að koma á stöðugleika í gjaldeyrismálum á Íslandi muni verg landsframleiðsla dragast saman um 10% á næsta ári og hugsanlega verði einnig samdráttur árið 2010.
„Góðu fréttirnar eru þær, að íslenska hagkerfið er mjög sveigjanlegt. Vegna þess að Ísland er háð fiskveiðum og álframleiðslu hefur Ísland stundum orðið fyrir frekar miklum áföllum en alltaf tekist að laga sig fljótt að aðstæðum. Ég býst því við, að eftir þessa bröttu niðursveiflu geti hagkerfið náð sér frekar hratt á strik."
Thomsen segir, að efnahagsáætlun Íslendinga, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn styðji, leggi áherslu á að stöðva gengisfall krónunnar því ella geti orðið hrina gjaldþrota fyrirtækja og heimila. Lagt er til að stjórntækjum í peninga- og gjaldeyrismálum verði beitt til að auka trú á krónunni og því megi gera ráð fyrir því að vextir verði áfram háir á næstunni. Þá verði einnig takmarkanir á fjármagnsflutningum. „Við ráðleggjum ríkisstjórninni að aflétta ekki þeim takmörkunum fyrr en stöðugleiki er kominn á að nýju á gjaldeyrismarkaði," segir Thomsen.
Hann er spurður hvort ekki sé óvenjulegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fallist á slíkar takmarkanir og svarar að þær hafi í raun verið fyrir hendi frá því íslensku bankarnir þrír féllu í byrjun október. Það sé forgangsmál samkvæmt áætlun IMF að afnema allar slíkar takmarkanir.
„En núverandi takmarkanir verða í gildi í næstu framtíð til að hindra fjármagnsflótta sem myndi valda frekari gengisfalli krónunnar," segir Thomsen. „Það er mikilvægt markmið, í áætluninni sem IMF styður, að aflétta öllum takmörkunum á tímabilinu sem hún nær yfir, eftir því sem trú á gjaldmiðilinn vex."