Krónan byrjuð að veikjast á ný

Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund
Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund Árni Sæberg

Gengi krónunnar hefur veikst um 0,77% í dag en fyrr í dag og allt frá því að krónan var sett á flot með ákveðnum takmörkunum á fimmtudaginn í síðustu viku hefur hún styrkst umtalsvert. Gengisvísitalan var 193 stig við upphaf viðskipta í dag en er nú 194,51 stig, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis. Gengi Bandaríkjadals er nú 114,31 króna, evran er 146,54 krónur, pundið er 167,98 krónur og danska krónan stendur í 19,668 krónum.

Mega einungis eiga viðskipti með gjaldeyri á Íslandi

Í Morgunkorni Greiningar Glitnis kemur fram að ekki er lengur til staðar tvöfaldur markaður með krónuna. Gengi krónunnar ákvarðast nú einvörðungu á innlendum markaði en ekki bæði hér og erlendis líkt og var fyrir setningu laga um gjaldeyrisviðskipti fyrir um einni og hálfri viku.

Fyrir tilkomu gjaldeyrislaganna og millibankamarkaðarins kostaði evran um 300 kr. á erlendum markaði á meðan hún kostaði hér 187 krónur. Erlendur markaður hefur nú lognast út af þar sem Íslendingar mega ekki lengur eiga gjaldeyrisviðskipti utan landssteinanna skv. lögum og reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál.

„Þrátt fyrir mikla hækkun gengis krónunnar undanfarna daga er hún enn lág sögulega séð. Að meðaltali hefur evran kostað 91 krónu frá floti krónunnar í mars 2001. Evran hélst undir 100 krónum alveg frá floti þar til í byrjun mars í ár.

Raungengi krónunnar, sem lýsir því hvernig krónan stendur gagnvart gengi gjaldmiðla helstu viðskiptalandanna leiðrétt fyrir innlendri og erlendri verðlagsþróun, segir að krónan stendur enn sögulega veik. Það gengi krónunnar sem tryggir ytra og innra jafnvægi hagkerfisins er talsvert hærra og er líklegt að krónan leiti í það jafnvægisgengi á næstu misserum," að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK