Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að heimurinn geti staðið frammi fyrir samdráttar- og stöðnunarskeiði í heilan áratug í líkingu við ástandið sem Japan átti við að glíma á tíunda áratugnum.
Krugman er staddur á Nóbelsviku í Stokkhólmi þar sem hann tekur við Nóbelsverðlaununum ásamt öðrum verðlaunahöfum á morgun, miðvikudag. Hann sagði við komuna til Svíþjóðar í gær að hann teldi stjórnmálamenn og stjórnvöld ættu eyða fjármunum frjálslega til að stemma stigu við fjármálakreppunni í heiminum.
„Myndin sem ég óttast að við eigum eftir að sjá í heiminum öllum er eitthvað í líkingu við hinn glataða áratug Japana - að við upplifum heim með núllprósent vexti, verðhjöðnun, engin batamerki, og þannig haldist það í langan tíma,“ er haft eftir Krugman á fréttamannafundi í Svíþjóð í gær. „Og það er mjög auðvelt að sjá slíkt gerast.“
Krugman bætti við að í versta dæminu sem hann gæti séð fyrir sér væri röð óhemju erfiðra vandamála „sérstaklega í löndum sem eiga í miklum erfiðleikum.“
Hann sagði að þegar væri komin fram merki um efnahagslegar og stjórnmálalegar kreppur í ætt við þær sem gengu yfir Argentínu og Indónesíu á tíunda áratugnum og snemma á þessari öld „einkanlega á jöðrum Evrópu“.
Ísland og Lettland eru nefnd sem evrópsk ríki sem hafi orðið sérlega illa úti í heimskreppunni.
„Við getum auðveldlega verið að tala um heimsbúskap í samdrætti fram til 2011 og jafnvel lengur,“ segir Krugmann. „Ef til er öruggur staður í heiminum, kem ég ekki auga á hann.“