Hlutabréf hækkuðu í verði í kauphöllinni á Wall Street í kvöld og er það rakið til þess að auknar líkur eru á að Bandaríkjaþing samþykki að verja 15 milljörðum dala til að aðstoða bandaríska bílaframleiðendur.
Dow Jones hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,8% og er 8761 stig. Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,17% og er 1565 stig. Gengi bréfa deCODE hækkaði um 0,9% og er 23 sent.
Leiðtogar demókrata á Bandaríkjaþingi sögðust í dag hafa náð samkomulagi í aðalatriðum við Hvíta húsið um björgunaráætlun fyrir bílaframleiðendur. Margir þingmenn repúblikana eru hins vegar sagðir tregir til að styðja áætlunina, einkum í öldungadeild þingsins þar sem meirihluti demókrata er naumur.