Endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefur óskað eftir því við skilanefnd Glitnis banka að vera leyst frá því verkefni, að rannsaka skilgreind atriði í aðdraganda þess að neyðarlögin voru sett um fjármálamarkaðinn.
Í tilkynningu frá KPMG áréttar fyrirtækið yfirlýsingu sína frá því í gær að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða og að starfsfólk KPMG hafi unnið á faglegum forsendum og samkvæmt ströngustu kröfum KPMG International.
„Við teljum að við núverandi aðstæður verði ekki nauðsynlegur vinnufriður um störf okkar í þessu verkefni og hætta sé á að niðurstöður verði gerðar tortryggilegar. Við höfum óskað eftir því við skilanefnd Glitnis banka hf. að vera leyst frá verkefninu til þess að það verði hafið yfir alla gagnrýni," segir síðan í yfirlýsingunni.
Fram kemur m.a. komið í Morgunblaðinu, að Sigurður Jónsson, forstjóri KPMG, er faðir Jóns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stoða, sem var kjölfestufjárfestir Glitnis.
Skilanefnd Glitnis valdi KPMG með samþykki Fjármálaeftirlitsins. Árni Tómasson, formaður nefndarinnar, sagði í skriflegu svari til Morgunblaðsins í dag, að skilanefndin hafi ekki haft ástæðu til að efast um hæfni eða óhæfi KPMG.