George W. Bush, Bandaríkjaforesti, ætlar að beita sér fyrir því að öldungardeildarþingmenn á Bandaríkjaþingi samþykki björgunarpakkann sem fulltrúadeild þingsins samþykkti í gær til handa bílaframleiðendunum þremur, GM, Chrysler og Ford. Þetta kom fram í máli Dönu Perino, talsmanni Hvíta hússins, á fréttamannafundi í dag.
Sagði Perino á fundinum að bandarískt efnahagslíf mætti alls ekki við því að bílafyrirtækin fari á hausinn. Efnahagslífið væri í það slæmri stöðu fyrir, þar sem atvinnuleysi hefði ekki verið meira í 26 ár, að allt að ein milljón manna án atvinnu til viðbótar myndi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér. Það yrði væntanlega niðurstaðan ef bílaframleiðendurnir fá ekki þá aðstoð sem fulltrúadeild þingsins hefur samþykkt.