Hrun íslensku bankanna er það versta sem nokkuð ríki hefur þurft að þola miðað við stærð hagkerfisins. Þetta kemur fram í úttekt viðskiptatímaritsins Economist í dag. Fjallað er ítarlega um stöðu mála á Íslandi og þá ekki síst stöðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra.
Kemur fram í úttekt Economist að Davíð hafi verið einn vinsælasti stjórnmálamaður Íslands sem hafi einkavætt bankakerfið að mestu að hætti Thatchers og sett krónuna á flot. En þegar krónan hrundi og viðskiptabankarnir þrír voru þjóðnýttir í byrjun október sem leiddi til þess að Ísland varð að leita eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þá hafi íslenska efnahagsundrið og orðspor Davíðs beðið hnekki.
Er fjallað um mótmælin á Austurvelli undanfarnar vikur og fyrir utan Seðlabanka Íslands þann 1. desember og að slík mótmæli þekkist vart á Íslandi eða ekki frá þeim tíma sem inngöngu landsins inn í Atlantshafsbandalagið var mótmælt árið 1949. Enda tekur greinarhöfundur fram að Davíð hafi varla stokkið bros á vör er hann sagði við blaðamann „Þeir segja að eina leiðin til þess að komast til himnaríkis án þess að deyja sé að verða seðlabankastjóri. Það er ekki raunin á Íslandi.”
Neysla Íslendinga fær sinn skerf í greininni, lúxusíbúðir og Range Roverar hvert sem litið er, líkt og flestir aðrir fjölmiðlar taka fram er þeir fjalla um lífið í Reykjavík þessar vikurnar. Að vísu gangi lúxusbifreiðarnar nú undir nafninu „game over” eða „leiknum er lokið.” En Íslendingar eru hins vegar bíða spenntir eftir næsta farmi frá Kína, flugeldum, enda skjóti engin þjóð upp jafn miklu magni af flugeldum og Íslendingar miðað við höfðatölu.
Vegna þeirrar verðbólgu sem nú sé á Íslandi hafi matarverð rokið upp og er haft eftir konu í greininni sem mætir á mótmælafundi að ef hún myndi hitta yfirmann banka þá ætlaði hún að sparka svo fast í afturendann á honum að skórinn sæti fastur inni. Tekur greinarhöfundur fram að það sem bíði íslenskra skattgreiðenda sé um tuttugufalt á við það sem Svíar þurftu að greiða fyrir sína bankakreppu. Eins sé þetta margfalt það sem Japanir þurftu að greiða í sinni efnahagskreppu.