Stöðvast bílabjarghringurinn í öldungadeildinni?

Reuters

Afgreiðsla bandaríska þingsins á björgunaraðgerðum fyrir bílaiðnaðinn þar í landi er orðinn að kapphlaupi við tímann.

Fulltrúadeild þingsins afgreiddi málið frá sér í nótt þar sem 237 voru meðmæltir frumvarpinu en 170 á móti því að veita General Motors og Chrysler 14 milljarða dala neyðarlán þegar í stað. Málið fer því nú til öldungadeildarinnar þar sem repúblikanar í minnihluta hafa hótað að tefja málið og jafnvel sjá til þess að það dagaði þar uppi.

Leiðtogar demókrata og ríkisstjórn Bush forseta kappkosta að koma málinu í gegnum þingið áður en til þess kemur að GM og Chrysler komast í þrot. Hjá GM gæti það gerst eftir þrjár vikur.

„Án þessa brúarláns gætum við lent í verstu kreppu sem þetta land hefur þekkt frá því  í kreppunni miklu“, hefur Bloomberg-vefurinn eftir John Dingell, fulltrúadeildarþingmanni demókrata frá Michigan, heimaríki bílaiðnaðarins. „Ægilegt slys vofir yfir.“

Tilsjónarmaðurinn fái meiri völd

Löggjöfin um neyðarlánið er huguð til að fleyta bílarisunum yfir tímabilið fram að 1. apríl á næsta ári en fyrir þann tíma eiga bílafyrirtækin að vera búin að ganga í gengum gagngera umbreytingu í rekstri sínum. Eftir sem áður geta fyrirtækin orðið gjaldþrota ef tilsjónarmaðurinn með bílarisunum, svo kallaður bílakeisari, eða carczar á máli heimamanna og forsetinn skipar, telur að aðgerðirnar gangi ekki nógu langt.

Repúblikanar telja að frumvarpið eins og það var afgreitt frá fulltrúadeildinni veiti tilsjónarmanninum ekki nægilegt vald, og öldungadeildarþingmaðurinn Robert Bennett frá Utah segir þennan aðila í reynd þurfa að hafa sambærilegt umboð og skiptastjóri í gjaldþrotamálum til að knýja hluti fram.

Samkvæmt frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir hefur tilsjónarmaðurinn heimild til að skrúfa fyrir einstök útgjöld yfir 100 milljónir dala. Bílafyrirtækin sem nýta lánsheimildina munu þurfa að lækka laun og afnema kaupauka 25 æðstu stjórnenda fyrirtækjanna. Þeim er einnig meinað að eiga eða kaupleigja einkaþotur eða greiða arð til hluthafa.

Ekki nægur stuðningur

Öldungadeildarþingmenn repúblikana funduðu í gær með Dick Cheney varaforseta og Josh Bolten, starfsmannastóra Hvíta hússins, og sögðu eftir fundinn að löggjöfin nyti ekki nægs stuðnings til sigrast á 60 atkvæða hindruninni sem veitir lögum brautargengi frá deildinni. Demókratar ráða öldungadeildinni með einu atkvæði, 50-49.

Leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, Harry Reid frá Nevada, freistar þess að ná samningum við repúblikana um að öldungadeildin fái að kjósa um málið á morgun. Andstæðingar frumvarpsins í deildinni vilja að þingið fái næstu viku til að fjalla um málið og gera á frumvarpinu þær breytingar sem þeir telja nauðsynlegar. Allar slíkar breytingar þurfa þá að fara aftur til fulltrúadeildarinnar til staðfestingar.

Í umræðunum um frumvarpið í fulltrúadeildinni varaði Barney Frank, demókrati frá Massachusetts aðra þingmenn við því að frekari umfjöllun fulltrúadeildarinnar um málið væri ólíkleg. „Þetta er síðasta lestin út frá þessari löggjafarstöð á þessu ári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK