Stórir bankar tapa á svindli

Stærsti banki Evrópu, HSBC í Bretlandi, bættist í kvöld í hóp þeirra fjármálastofnana sem viðurkenna að hafa tapað á píramídafyrirtæki virts bandarísks fjármálamanns. Áður hafa breskir franskir, svissneskir, ítalskir, japanskir og spænskir bankar upplýst að þeir verði fyrir tjóni vegna málsins.

Sjálfur hafði fjármálamaðurinn Bernard Madoff, eigandi  Madoff Investment Securities, sagt að heildartapið næmi um  50 milljörðum dala, jafnvirði 5800 milljarða króna. Hann hefur sjálfur viðurkennt að um hefði verið að ræða einskonar píramídafyrirtæki.

Hlutabréf Santander, stærsta banka Spánar og næst stærsta banka Evrópu á eftir HSBC, hröpuðu í dag eftir að bankinn upplýsti að hann kynni að tapa yfir 3 milljörðum dala á svikamyllu Madoffs. Spænskir fjölmiðlar segja, að næst stærsti banki landsins, BBVA, kynni að tapa allt að 500 milljónum evra.

HSBC tilkynnti í kvöld að bankinn hefði veitt nokkrum viðskiptavinum lán til að fjárfesta í fyrirtæki Madoffs.  Um væri að ræða upphæð, sem næmi samtals um 1 milljarði dala.

Royal Bank of Scotland sagðist kynnu tapa um 400 milljónum punda og tveir breskir fjárfestingarsjóðir sögðust hugsanlega tapa hundruð milljónum dala.

Þá tilkynnti hollenski bankinn Fortis, að hann og dótturfélög hans kynnu að tapa um 1 milljarði evra.  

Franski fjárfestingarbankinn Natixis, sem fór illa út úr undirmálslánakreppunni, áætlaði að hann hefði lánað jafnvirði 606 milljónum dala til fjárfestinga í fyrirtæki Madoffs. BNP Paribas sagðist hugsanlega tapa 350 milljónum evra.

Franska tryggingafélagið  Axa sagði að það myndu hugsanlega tapa innan við 100 milljónum evra og bankarnir Societe Generale og Credit Agricole sögðust hugsanlega tapa innan við 10 milljónum evra.

Japanska fjármálafélagið Nomura sagðist hugsanlega myndu tapa um 303 milljónum dala og suður-kóreskar fjármálastofnanir sögðust hafa lánað samtals um 95 milljónir dala til þessara fjárfestinga.

UniCredit, stærsti banki Ítalíu, sagði að hugsanlegt tap yrði um 75 milljónir evra og Banco Popolare sagði að tapið kynni að vera 68 milljónir evra.

Þá sagði svissneska blaðið Le Temps, að þarlendir bankar kynnu að tapa um 5 milljörðum evra á svindlinu. Bankinn Reichmuth & Co sagðist hugsanlega hafa tapað 328 milljónum dala. 

Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagðist í dag vera afar undrandi á því að bandarískar eftirlitsstofnanir skyldu ekki hafa séð hvernig var í pottinn búið hjá Madoff.


Bandaríski fjármálamaðurinn Bernard L. Madoff.
Bandaríski fjármálamaðurinn Bernard L. Madoff. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK